Almennt atvinnuleysi var 11,4% í febrúar og minnkaði um 0,2% frá því í janúar. Atvinnuleysi var 10,7% í desember á síðasta ári, 10,6% í nóvember og 9,9% í október. Vinnumálastofnun spáir því að almennt atvinnuleysi minnki í mars og verði á bilinu 10,9% til 11,3%
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar sem má sjá í heild sinni á vef stofnunarinnar.
Alls voru 21.352 atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok febrúar og 4.331 í minnkuðu starfshlutfalli. Af þeim höfðu 4.719 verið án atvinnu í meira en 12 mánuði og hefur þeim fjölgað um 2.826 á milli ára.
Samanlagt atvinnuleysi í almenna kerfinu og í minnkaða starfshlutfallinu dróst alls staðar saman á landinu milli mánaða nema á Austurlandi þar sem það breyttist lítið. Mesta atvinnuleysið er á Suðurnesjum eða 25,4%. Næst mest er það á höfuðborgarsvæðinu þar sem það var 12,1% í febrúarlok og hafði minnkað um 0,3% á milli mánaða.
Af þeim 21.352 sem voru atvinnulausir í lok febrúar var 41% með grunnskólapróf. Um það bil fjórðungur var með háskólapróf og er það svipað hlutfall og hefur verið.