Borgar vangreidd laun starfsmanna

Frá dreifingarstöð Eldum rétt á Nýbýlavegi í Kópavogi.
Frá dreifingarstöð Eldum rétt á Nýbýlavegi í Kópavogi. mbl.is/Hari

Ábyrgðarsjóður launa hefur fallist á að gangast í ábyrgð fyrir vangreiddar launagreiðslur til fjögurra félagsmanna Eflingar stéttarfélags sem störfuðu hjá fyrirtækinu Eldum rétt. Launagreiðslunum var haldið eftir á þeim forsendum að um væri að ræða kostnað við húsnæði, líkamsræktarkort og fleira. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu.

Félagsmennirnir nutu aðstoðar Eflingar og lögmannsstofunnar Réttar við stefnu á hendur Eldum rétt og starfsmannaleigunni Menn í vinnu en fyrirtækin voru sýknuð í héraðsdómi á dögunum. Málinu hefur verið áfrýjað til Landsréttar.

„Með ákvörðun sinni viðurkennir Ábyrgðarsjóður launa að um ólögmætan launafrádrátt hafi verið að ræða, en um það snerist dómsmál félagsmannanna að stórum hluta. “ segir í tilkynningu Eflingar.

Mikilvægt skref í átt að vernd verkalauna

Þá segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður fjórmenninganna, að ágreiningur dómsmálsins hafi einkun lotið að því hvort Mönnum í vinnu hefði verið heimilt að draga, að eigin ákvörðun, ýmsa kostnaðarliði frá launum starfsmanna og lýsa því þannig yfir að launin væru greidd með skuldajöfnun.

„Verkalýðshreyfingin hefur lengi barist gegn einhliða frádrætti af verkalaunum og voru um það sett lög í byrjun síðustu aldar. Með þeirri ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa að fallast á að greiða laun starfsmannanna án frádráttar stígur sjóðurinn mikilvægt skref í þá átt að vernda verkalaun starfsmanna gegn einhliða skuldajöfnuði atvinnurekandans,“ bætir Ragnar við.

Miður að kostnaðurinn lendi á skattgreiðendum

Þar sem skaði félagsmanna Eflingar hefur verið bættur, með ákvörðun Ábyrgðarsjóðs launa, mun ekki ekki styðja framhald dómsmála á hendur Eldum rétt og Mönnum í vinnu. Efling mun þannig ekki koma að áfrýjuninni til Landsréttar.

„Það er sannarlega ánægjulegt að Ábyrðarsjóður launa hafi á síðustu stundu stigið inn og viðurkennt réttmæti þeirra krafna sem launagreiðendur kusu að slást um við láglaunafólk fyrir dómi. Þannig er félagsmönnum okkar bættur skaði og því eru að okkar mati ekki sömu forsendur fyrir dómsmáli. Hins vegar er það miður að þessi kostnaður lendi á skattgreiðendum og vil ég skora á Eldum rétt að axla ábyrgð og endurgreiða Ábyrgðarsjóði þessar fjárhæðir,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í tilkynningunni.

Um ræðir upphæðir á bilinu 120-195 þúsund í tilfelli hvers þeirra fjögurra félagsmanna sem í hlut áttu. Hafa greiðslurnar verið lagðar inn á reikninga þeirra.Efling og Réttur studdu 20 félagsmenn til að leggja fram kærur til Héraðssaksóknara í ágúst 2019 og apríl 2020 vegna grunaðra brota af hálfu Manna í vinnu.

Rannsókn er yfirstandandi hjá Héraðssaksóknara vegna þessara mála að því er fram kemur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert