Um 1.000 sýni höfðu verið tekin inn í veirutæki sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans fyrir klukkan 18. Af þeim 600 til 700 svörum sem voru komin hafði ekkert jákvætt sýni greinst.
Að sögn Karls G. Kristinssonar, yfirlæknis á deildinni, eru þetta að vonum jákvæð tíðindi. Hafa ber samt í huga að ekki eru komnar niðurstöður úr öllum sýnunum. Eftir að sýni er sett inn í tækið tekur þrjár klukkustundir að fá svar.
„Það á eftir að keyra heilmikið af sýnum enn þá. Við vitum ekki hvernig dagurinn mun líta út,“ segir hann og reiknar með því að á annað þúsund sýna verði tekin inn í veirutækið í dag.
Af þeim þremur jákvæðu sýnum sem greindust á deildinni í gær, greindust tveir með smit á landamærunum, auk þess sem einn var með mótefni í landamæraskimun.