Enginn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær en tveir greindust með smit á landamærunum. Annar þeirra í fyrri skimun og hinn í þeirri síðari. Einn var með mótefni í landamæraskimun í gær. Aðeins einn er á sjúkrahúsi vegna Covid-19.
Nú eru 17 í einangrun og 194 í sóttkví. 1.126 eru í skimunarsóttkví og hefur fjölgað mjög á milli daga en í gær voru þeir 886.
Allir þeir sem hafa greinst utan sóttkvíar undanfarna daga eru með bráðsmitandi afbrigði veirunnar sem fyrst greindist í Bretlandi. Það er þeir fjórir sem greindust á föstudag. Þrjú jákvæð sýni voru greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í gær en það eru væntanlega smitin þrjú á landamærunum en einn þeirra reyndist síðan vera með mótefni, það er um gamalt smit er að ræða.
Nýgengi smita innanlands á hverja 100 þúsund íbúa er nú 1,6 síðustu tvær vikur og 3,5 á landamærunum.
Alls voru 800 einstaklingar skimaðir innanlands í gær og 456 á landamærunum. Á höfuðborgarsvæðinu eru 13 í einangrun og 179 í sóttkví. Á Suðurnesjum eru tveir með Covid og fimm í sóttkví. Á Suðurlandi eru tvö smit og fimm í sóttkví. Á Norðurlandi eystra eru tveir í sóttkví en einn á Vestfjörðum og þrír á Vesturlandi.
Eitt smit er í aldurshópnum 13-17 ára og fimm hjá 18-29 ára. Sjö eru með Covid-19 í aldurshópnum 30-39 ára og einn í aldurshópnum 40-49 ára. Eins er einn á sextugsaldri með Covid, einn á sjötugsaldri og einn á áttræðisaldri.