Úrvinnsla á gervihnattamyndum sem bárust í morgun og nýjustu GPS-mælingum, staðfesta að kvikusöfnun er áfram skorðuð við suðurenda kvikugangsins sem nær frá Keili að Fagradalsfjalli.
Sá staður er áfram talinn vera líklegasti staðurinn komi til eldgoss, að því er kemur fram á facebooksíðu Veðurstofunnar.
GPS-mælingar benda til þess að hægt hafi örlítið á kvikuflæði, en óvissan í þeim mælingum er þó talsverð þar sem kvikan liggur mjög grunnt í jarðskorpunni, eða á um 1 km dýpi.
Að mati vísindaráðs er mikilvægt að fylgjast náið með virkninni í suðurhlíðum Fagradalsfjalls til að sjá hvort að hún er vísbending um að kvikugangurinn sé að stækka til suðurs.