Hefur tekist að reka Suðurnesin í eyju

Horft yfir Reykjanesskagann. Þar hefur verið mikil skjálftavirkni undanfarið.
Horft yfir Reykjanesskagann. Þar hefur verið mikil skjálftavirkni undanfarið. mbl.is/Árni Sæberg

Enn eru taldar mjög litlar líkur á að rennsli mögulegs eldgoss á Reykjanesskaga næði að Suðurnesjalínu 1 og er því ólíklegt að ef til eldgoss kemur muni það koma rafmagni á svæðinu í uppnám. 

Landsnet er, að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, í nánu samstarfi við almannavarnir og Veðurstofu Íslands hvað varðar viðbúnað vegna mögulegs eldgoss á Reykjanesskaga. 

Samkvæmt tilkynningu á vef Landsnets hefur tekist að reka Suðurnesin í eyju í tilfellum þar sem Suðurnesjalína 1 hefur verið tekin úr rekstri vegna viðhalds, í stýrðu ferli þar sem framleiðsla og notkun raforku á svæðinu eru jöfnuð. Í þannig eyjarekstri er raf­orka nýtt á svæðinu sem fram­leidd er í virkj­un­um sem staðsett­ar eru á skag­an­um.

Eyjarekstur viðkvæmur fyrir kerfishruni

„Slíkur eyjarekstur er viðkvæmur fyrir kerfishruni þegar fyrirvaralaus bilun á sér stað. Slíkir atburðir í tengivirkjum eða á línunni hefur nær undantekningalaust valdið straumleysi á Suðurnesjum,“ segir í tilkynningunni. 

Steinunn segir að Landsnet skoði nú leiðir til þess að verja einstaka möstur með varnargörðum og hvort það sé hægt að kæla hraunið og tefja þannig rennslið á því, ef til þess kemur að hraun úr mögulegu gosi nái að Suðurnesjalínu 1. 

Samkvæmt fyrrnefndri tilkynningu hefur Landsnet „í mörg ár talað fyrir mikilvægi þess að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum og auka flutningsgetu raforkukerfisins milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja með byggingu Suðurnesjalínu 2“.

Verkefnið er í forgangi hjá Landsneti sem og hluti af innviðaruppbyggingu ríkisstjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert