Það kom forsvarmönnum Eldum rétt mjög á óvart þegar Efling sendi frá sér tilkynningu um að Ábyrgðarsjóður launa hafi ákveðið að gangast í ábyrgð fyrir ætlaðar vangreiddar launagreiðslur til fjögurra félagsmanna stéttarfélagsins sem störfuðu hjá fyrirtækinu.
Þetta segir Hildur Leifsdóttir, lögmaður Eldum rétt.
Núna hefur komið í ljós að sjóðurinn virðist hafa brotið lög með því að gangast í ábyrgðina og ætlar Vinnumálastofnun að taka málsmeðferð sjóðsins til endurskoðunar.
„Það hlaut að vera að það lægju einhver mistök þarna á bak við. Þetta samræmdist hvorki lögum um Ábyrgðarsjóðinn né dómi héraðsdóms. Það hefðu Efling og lögmenn félagsins átt að sjá,“ segir Hildur.
Hún bendir á að í dóminum hafi ekki verið viðurkennt að um ólögmætan launafrádrátt hafi verið að ræða. Í raun hafi sérstaklega verið tekið fram að vangoldin laun hafi ekki verið til staðar og að Ábyrgðarsjóðurinn ætti ekki að þurfa að greiða neitt.
Hildur segir það sérstakt að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafi í tilkynningunni í dag skorað á Eldum rétt að greiða kröfur sem ekki eru til staðar og sem Ábyrgðarsjóðurinn hefur í kjölfarið lýst yfir að eigi ekki rétt á sér og verði ekki endurgreiddar.
„Það verður forvitnilegt að sjá hvort Efling stendur skil á ofgreiðslum frá Ábyrgðarsjóðnum. Þessi málarekstur hefur verið með ólíkindum frá upphafi. Forsvarsmenn Eflingar sjá vonandi sóma sinn í að láta staðar numið núna gagnvart Eldum rétt,“ segir Hildur.
Spurð út í mögulega eftirmála eftir tilkynningu Vinnumálastofnunar í kvöld segist hún reikna með því að lögmenn Eflingar þurfi að skoða málið betur, en Efling hefur talað um að skjóta málinu til Landsréttar. „Komi málið til kasta Landsréttar mun Eldum rétt grípa til varna og við hræðumst það ekki,“ segir hún.