Innanlandssmitin fjögur sem hafa greinst utan sóttkvíar síðustu daga, þ.e. á föstudag, laugardag og mánudag, eru öll af breska afbrigði veirunnar, samkvæmt upplýsingum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi fyrst frá þessu í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Breska afbrigðið er talið meira smitandi en upprunalega afbrigði veirunnar og hafa sérfræðingar sagt það áhyggjuefni að innanlandssmit þess hafi komið upp hér á landi síðustu daga.
Þrjú jákvæð sýni greindust hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær. Ekki er vitað hvort smitin séu ný eða gömul og hefur ekki verið greint frá því hvort þau séu af breska afbrigðinu.