Rannsókn lögreglu á andláti sem varð í Sundhöll Reykjavíkur í janúar er nánast lokið en beðið er endanlegrar niðurstöðu úr krufningarskýrslu.
Þetta segir Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is.
Maðurinn sem lést í Sundhöllinni hét Guðni Pétur Guðnason og var 31 árs. Hann starfaði í geðþjónustu og var með geðfötluðum skjólstæðingi sínum í lauginni, eins og hann var jafnan daglega.
Búið er að yfirheyra alla sem komu að málinu og Guðmundur segir að búið sé að fara yfir myndefni úr öryggismyndavélum en tæknideild hefur unnið að málinu með rannsóknardeild.