Ekkert lát virðist vera á smitum hestaherpes í Evrópu. Fyrsta gerð veirunnar, sem veldur alvarlegum smitsjúkdómi, kom upp á stóru móti í hindrunarstökki í Valencia á Spáni í febrúar í ár. Um er að ræða mjög sjúkdómsvaldandi afbrigði veirunnar sem veldur heilabólgu og lömun. Veiran smitar ekki menn, að því er kemur fram á vef Matvælastofnunar.
„Fjöldi hrossa yfirgaf mótssvæðið um það leyti sem grunur vaknaði um sjúkdóminn sem leiddi til þess að nú hafa sjúkdómstilfelli, sem rekja má til mótsins í Valencia, verið staðfest í 8 löndum. Þetta eru Svíþjóð, Þýskaland, Belgía, Sviss, Frakkland, Spánn, Ítalía og Katar. Auk þess berast fréttir um sjúkdóminn frá Bandaríkjunum en þau tilfelli eru ótengd smitinu í Evrópu,“ segir í tilkynningu.
Þá kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðahestasambandinu sé staðfest að tíu hross hafi drepist, átta á Spáni og tvö í Þýskalandi, en óstaðfestar fregnir eru um fleiri dauðsföll auk þess sem fjöldi hrossa er fárveikur.
Þó svo veiran smitist helst með veikum hrossum getur hún einnig borist með sæði og fósturvísum, fólki, fatnaði og hvers kyns búnaði.
„Okkar ströngu reglur til varnar smitsjúkdómum eru settar meðal annars út frá hættunni á að þessi sjúkdómur berist til landsins. Nú ríður á sem aldrei fyrr að allir fari eftir reglunum. Íslendingar sem ferðast vegna starfa sinna eða annarra tengsla við hestamennsku erlendis þurfa að sýna gott fordæmi og breiða út boðskapinn,“ segir í tilkynningunni