Selja bjórinn beint af tönkunum í Skútuvogi

Malbygg Tap Room hefur opnað í Skútuvogi.
Malbygg Tap Room hefur opnað í Skútuvogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er kannski ekki besti tíminn til að opna bar en ástandið í þjóðfélaginu er þó eitthvað að lagast og við erum bjartsýnir. Svo verður þetta vonandi komið í gott horf í sumar,“ segir Andri Þór Kjartansson, einn aðstandenda brugghússins Malbyggs.

Andri og félagar hans hafa opnað Malbygg Tap Room, bar sem er framlenging á brugghúsi þeirra í Skútuvogi. Á Malbygg Tap Room er hægt að nálgast brakandi ferskar lagnir af bjórum Malbyggs auk ýmissa innfluttra bjóra.

„Við vorum með lítið auglýsta opnun í síðustu viku og það gekk allt vel. Við vildum að þetta færi rólega af stað til að læra inn á allt saman. Svo höldum við áfram í þessari viku og verðum með opið fimmtudag, föstudag og laugardag frá klukkan 16-22. Við getum tekið á móti 35 manns í einu þegar við höfum stillt borðunum upp með tilliti til tveggja metra reglu og vonumst eftir passlegum fjölda,“ segir Andri.

Á Malbygg Tap Room er hægt að velja úr átta mismunandi Malbygg-bjórum á krana hverju sinni og segir Andri að hugmyndin sé að skipta þeim reglulega út svo alltaf sé ferskur og nýframleiddur bjór í boði. Eins og tíðkast á bjórbörum býðst fólki að kaupa smakkbakka með fjórum tegundum af bjór. Að auki er hægt að velja úr ágætu úrvali af Malbygg-bjórum á dósum og flöskum, fjölda belgískra lambic-bjóra og ýmsum öðrum bjórum sem Malbygg-menn flytja sjálfir inn.

Þrjú ár eru síðan Malbygg var sett á stofn. Fyrsti bjór brugghússins var kynntur til sögunnar á árlegri bjórhátíð á Kex Hostel í febrúar 2018 og skömmu síðar fóru bjórar þess að rata í Vínbúðina. Síðan hafa nokkrir tugir nýrra bjórtegunda litið dagsins ljós.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka