Sjö þúsund bólusettir í vikunni

Bólusetningar við Covid-19 fara fram í Laugardalshöllinni.
Bólusetningar við Covid-19 fara fram í Laugardalshöllinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta hefur gengið glimrandi vel. Hingað hefur verið mikill straumur af fólki,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Bólusett var í Laugardalshöllinni í gær. Að sögn Ragnheiðar var fólk sem fætt er 1940, 1941 og 1942 boðað í bólusetningu og örfáir eldri en það sem ekki hafa átt kost á að þiggja bólusetningu fyrr. Þá voru heilbrigðisstarfsmenn 65 ára og eldri boðaðir í Höllina í gær sem og lítill hópur af heilbrigðisstarfsmönnum á aldrinum 16-18 ára. Ragnheiður segir aðspurð að umræddur hópur starfi við umönnun á öldrunarheimilum og má hann ekki fá annað bóluefni en Pfizer, rétt eins og fólk yfir 65 ára. „Allt í allt eru þetta um 3.000 manns og við eigum von á því að bóluefni dugi vel fyrir þann hóp,“ sagði Ragnheiður um miðjan dag í gær.

Fram kom á vef landlæknis í byrjun vikunnar að um sjö þúsund einstaklingar verði bólusettir á landinu í vikunni. Þar af eru 3.300 sem fá fyrri bólusetningu af bóluefni Pfizer. Þá séu 3.700 skammtar af bóluefni AstraZeneca ætlaðir starfsmönnum í forgangshópi 4 og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum.

Eftir að kórónuveirusmit voru greind um helgina og óvissa ríkti um framvindu faraldursins var ákveðið að leggja aukna áherslu á bólusetningu heilbrigðisstarfsmanna til að kerfið væri í stakk búið til að takast á við mögulegt álag. Sem kunnugt er var einn hinna smituðu starfsmaður á göngudeild lyflækninga Landspítalans og hafði hann ekki verið bólusettur.

„Nú er verið að reyna að klára að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn innan stofnana áður en við förum í starfsfólk utan stofnana. Við erum búin að bólusetja alla heilbrigðisstarfsmenn innan heilsugæslunnar en það eru eftir nokkrir innan Landspítalans. Planið er að klára þær bólusetningar í næstu viku. Ég held að þeir séu með 2.400 skammta í þessari viku og þúsund í næstu viku. Þetta er allt að koma á Landspítalanum,“ segir Ragnheiður.

Aðspurð segist hún ekki vita hvernig bólusetningum verði hagað í næstu viku. Ekki séu fyrirliggjandi upplýsingar um þá skammta sem verða tiltækir þá. „Við höfum oftast fengið upplýsingar þar um á miðvikudegi eða fimmtudegi og þá setjum við upp plan fyrir næstu viku.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert