Skólastjórar í Kópavogi telja ákvörðun um að slá samræmdum pófum á frest, vegna tæknilegra örðuleika sem upp komu við fyrirlögn þeirra á mánudaginn, óviðunandi inngrip í skipulag skólastarfs og að hún sýni lítilsvirðingu gagnvart því sem þar er verið að vinna.
Þetta kemur fram í ályktun fundar skólastjóra í Kópavogi sem haldinn var í gær.
Þá leggja skólastjórarnir til að frekari próftöku þetta skólaárið verði aflýst meðan ekki er búið að vinna viðunandi prófakerfi sem ræður til álagið og fyrirlögn af þessu tagi.
Eins og greint var frá fyrr í vikunni voru samræmdum könnunarprófum fyrir 9. bekkinga sem fyrirhuguð voru í vikunni, í stærðfræði og ensku, frestað. Boðið verður upp á að endurtaka íslenskuprófið sem fram fór á mánudaginn í skugga tækniörðuleika.
Salvör Nordal umboðsmaður barna gagnrýndi fyrirlögn prófanna og sagði algjörlega óviðunandi að ítrekað séu lögð fyrir samræmd próf í prófakerfi sem af skipuleggjendum er metið „algjörlega ófullnægjandi“ eins og reynslan hefur sýnt. Fundur skólastjóranna tók undir gagnrýni hennar.
„Fundurinn telur jafnframt tímabært að fyrirlögn samræmdra prófa í núverandi mynd sé tekin til gagngerrar endurskoðunar. Þau eru barn síns tíma og eiga í þessari mynd ekkert erindi inn í skólastarf undir hugmyndafræði skóla án aðgreiningar,“ segir í ályktun fundarins.