Vel undirbúin fyrir storminn

Landsnet hefur fært mannskap á svæðið til að bregðast við …
Landsnet hefur fært mannskap á svæðið til að bregðast við ef eitthvað kemur upp. Ljósmynd/Landsnet

Seltublandaður snjór gæti valdið vandræðum hjá tengivirki Landsnets í Hrútartungu en horfur eru á seltublönduðum snjó í óveðri sem spáð er á Vestfjörðum seinnipartinn í dag. Þá gæti vindálag orðið til þess að línur sláist saman en útlit er fyrir að vindur verði aðeins minni á svæðinu en upphaflega var spáð. Landsnet hefur fært mannskap á svæðið til að bregðast við ef eitthvað kemur upp. 

Þetta segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets. 

„Við erum vel undirbúin fyrir þetta veður,“ segir Steinunn. Undirbúningur hófst í gær og hann hefur haldið áfram í dag. 

„Við erum búin að funda með veðurfræðingnum okkar og vitum svona sirka á hvaða línur þetta veður getur haft áhrif á. Þegar við erum að tala um línur á Vestfjörðum er það fyrst og fremst vindálag sem skiptir máli. Eftir því sem meiri vindur er á svæðinu, því meiri líkur eru á að línur slái saman. Það er ekki eins mikill vindur í kortunum núna og von var á svo vonandi sleppur þetta til.“

Æfa sig alla daga fyrir sérsakar aðstæður

Eins og áður segir gerir veðurspá ráð fyrir því að stormurinn, sem verður á Vest­fjarðar­kjálk­an­um, í Döl­um og við Húna­flóa, hefjist seinni partinn í dag. Þá á veðrið að ganga niður um miðjan dag á morgun.

Landsnet stendur í ströngu þessa dagana því auk yfirvofandi óveðurs er einnig unnið að viðbrögðum við mögulegu eldgosi á Reykjanesskaga. Þá eru einnig stífar reglur í gildi innan fyrirtækisins vegna kórónuveirunnar. Um það að takast á við þetta þrennt samtímis segir Steinunn:

„Þetta er náttúrulega heilmikil áskorun en við erum alla daga að æfa okkur fyrir sérstakar aðstæður. Þetta eru þannig dagar. Í dag erum við að keyra á þremur viðbragðsáætlunum: Veðrið á Vestfjörðunum, mögulegt eldgos og svo erum við eins og allir aðrir með viðbragðsáætlun vegna Covid. Við erum öryggisfyrirtæki og innviðafyrirtæki svo við erum með mjög harðar reglur þegar kemur að fjölda og samskiptum hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert