Þrátt fyrir að atvinnuástandið í Suðurkjördæmi sé erfitt, einkum suður með sjó, eru Páll Magnússon og Kolbeinn Óttarsson Proppé bjartsýnir. Kolbeinn leggur meðal annars til að á Árborgarsvæðinu verði klasi á sviði matvælaframleiðslu; þar sé allt til alls í þeim efnum. Þetta kemur fram í viðtali Andrésar Magnússonar við þingmennina í Þjóðmálunum, þætti á Dagmálum, sem aðeins eru opin áskrifendum Morgunblaðsins.
Kolbeinn gefur kost á sér í 1. sæti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi fyrir komandi þingkosningar, en hann situr nú fyrir Suður-Reykjavík. Páll er 1. þingmaður Suðurkjördæmis og oddviti sjálfstæðismanna þar og sækist eftir að halda þeirri stöðu. Kjördæmið er afar víðfemt og fjölbreytilegt eftir því, 31 þúsund km² að stærð og nær frá Reykjanestá austur fyrir Hornafjörð. Þegar ferðaþjónusta lagðist í dvala í heimsfaraldrinum hafði það mikil áhrif á atvinnulíf í kjördæminum, einkum á Reykjanesskaga þar sem atvinnuleysi er nú í hæstu hæðum.
Þeir Páll og Kolbeinn eru samt mjög bjartsýnir á horfurnar eftir að faraldrinum linnt, segja tækifærin í kjördæminu nær óþrjótandi. Kolbeinn nefndi sérstaklega uppbyggingu háskólamenntunar á sviði marvælaframleiðslu á Árborgarsvæðinu. Þar væru fyrir margs konar stofnanir líkt og MAST, rannsóknamiðstöðin í Gunnarsholti, Garðyrkjuskólinn og fleira, sem styddu það í þessu blómlega landbúnaðarhéraði og helsta matvælaframleiðslusvæði landsins. Þar væri allt til alls og matvælaframleiðsluklasi vel til þess falinn að styrkja hana enn frekar. Spurður hvort þetta væri kosningamál sagði Kolbeinn að hann ætlaði sér að gera það að kosningamáli.