200 milljóna niðurskurður á tveimur árum

Úr kennslustofu í grunnskóla.
Úr kennslustofu í grunnskóla. mbl.is/Hari

Forstjóri Menntamálastofnunar er ósammála fullyrðingu mennta- og menningarmálaráðherra um að stofnunin sé vel fjármögnuð og segir að búið sé að skera niður fjárveitingar til stofnunarinnar um 200 milljónir króna á síðustu tveimur árum.

Hann bætir við að fjárveitingarnar séu á sömu krónutölu og þær voru árið 2017.

„En ég tel að það sé ekki vænlegt að festast í deilum um slíkt. Menn þurfa að leggjast á árar núna og horfa til framtíðar um þessi mál,“ segir Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, og nefnir að menntastefna til ársins 2030 liggi fyrir Alþingi með metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir íslenskt menntakerfi.

„Við teljum mikilvægt eins og staðan er núna að vinna uppbyggilega úr þessari stöðu og að það náist sátt um námsmat í framtíðinni.“

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar.
Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar. mbl.is/Árni Sæberg

Ákvörðun vegna prófa tekin í dag

Framkvæmd samræmdra prófa í grunnskólum fór úrskeiðis á mánudaginn. Hundruð nemenda í 9. bekk í náðu ekki að ljúka samræmdu prófi í íslensku vegna tæknilegra örðugleika og hefur prófum í stærðfræði og ensku verið frestað.

Engin ákvörðun liggur fyrir um næstu skref í tengslum við prófin en Arnór reiknar með því að ákvörðun verði tekin í dag. Stofnunin hefur farið yfir málin með ráðuneytinu. „Við höfum ekki fengið að okkar mati viðeigandi úrlausn varðandi þessi tæknilegu vandamál og síðan er ákveðinn lagarammi varðandi samræmd próf sem þarf að skoða. Það eru ýmsar hliðar á þessu máli sem þarf að fara í gegnum,“ greinir hann frá. Stofnunin hefur lagt fram ákveðnar tillögur til ráðneytisins, sem mun taka endanlega ákvörðun.

Hann segir mikilvægt að ákvörðunin liggi fyrir sem fyrst þannig að skólar og nemendur geti fengið upplýsingar um niðurstöðuna. 

Grunnskólanemendur í kennslustofu.
Grunnskólanemendur í kennslustofu. mbl.is/Hari

Skýringar þjónustuaðila ósannfærandi

Spurður nánar út í hvað fór úrskeiðis í prófunum segir Arnór vandamálið liggja hjá þjónustuaðila stofnunarinnar. Kerfið frá honum hafi ekki þolað álagið þegar margir nemendur fóru inn í það í einu. „Við höfum beðið um rótargreiningu á því vandamáli og okkar tæknimenn hafa farið í gegnum þetta en þær skýringar sem við höfum fengið hingað til eru ekki sannfærandi,“ segir hann og telur stofnunina ekki hafa fengið nægar upplýsingarnar um orsök grunnvandans hjá þjónustuaðilanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert