215 milljóna króna stuðningur við Seyðisfjörð

Frá vinstri: Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, Sigurður Ingi Jóhannsson, …
Frá vinstri: Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings. Ljósmynd/Stjórnarráð Íslands

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirritaði í dag samkomulag við Múlaþing um þriggja ára verkefni til að byggja upp atvinnulíf á Seyðisfirði, sem stendur frammi fyrir margþættum vanda í kjölfar hamfaranna í desember.

Ríkisstjórnin leggur til 215 milljónir króna til að styðja við þróun atvinnutækifæra og nýsköpun, greiða fyrir því að óvissa verði leidd til lykta og einyrkjum og minni fyrirtækjum veitt ráðgjöf, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Sigurður Ingi heimsótti Seyðisfjörð í morgun af þessu tilefni, fékk leiðsögn um svæðið og ræddi við heimafólk áður en gengið var til undirritunar á veitingastaðnum Öldunni á Seyðisfirði. Auk ráðherra skrifuðu Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, og Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar undir samkomulagið. 

Verkefnisstjórn er skipuð tveimur fulltrúum Múlaþings, tveimur fulltrúum íbúa á Seyðisfirði og einum fulltrúa Austurbrúar. Austurbrú heldur utan um verkefnið og hefur ráðið til þess verkefnisstjóra. Fjárframlag ríkisins mun nema 105 milljónum kr. í ár en 55 milljónum kr. hvort ár, 2022 og 2023.

Byggðastofnun mun veita ráðgjöf og styðjast þar við reynslu sína við uppbyggingu atvinnulífs. Múlaþing og Austurbrú munu leggja til fjármagn, vinnuframlag og aðstöðu.

Nánar má lesa um verkefnið hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert