Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps krefst þess að Vegagerðin og samgönguyfirvöld bregðist við ótryggri stöðu í samgöngumálum á svæðinu.
Eftir að Breiðafjarðarferjan Baldur bilaði á miðjum firði í dag, eru allar leiðir til og frá sunnanverðum Vestfjörðum lokaðar, að sögn sveitarstjórnarinnar. Þess er krafist að yfirvöld útvegi aðra ferju.
„Þetta óöryggi í samgöngum er algjörlega óásættanlegt,“ segir í bókun sem sveitarstjórinn, Ólafur Þór Ólafsson, hefur sent mbl.is. Ítrekað hafi verið bent á ástandið á fundum með Vegagerðinni.
Klettsháls er ófær og ekki hefur verið flogið á Bíldudal í tvo daga. Það, ásamt því að ferjan kemur ekki að miklu gagni sem stendur, gerir það að verkum að allar leiðir eru lokaðar.
„Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps krefst þess að Vegagerðin og samgönguyfirvöld bregðist við þessari stöðu nú þegar og útvegi aðra ferju sem hentar til siglinga á Breiðafirði án þess að öryggi farþega sé stefnt í hættu á meðan ástand vega er jafn slæmt og raun ber vitni,“ segir í bókuninni.
„Jafnframt krefst sveitarstjórnin þess að Vegagerðin auki þjónustu sína í vetrarmokstri á Klettshálsi og öðrum fjallvegum nú þegar, þannig að hægt verði að tryggja öruggar samgöngur við svæðið,“ segir loks.
Baldur bilaði einnig síðasta sumar af sömu ástæðu og nú. Eftir það hefur sveitarstjórnin að eigin sögn bent ítrekað á slæmt ástand á svæðinu. Verið er að draga Baldur í land en óljóst er hvort það takist í kvöld.