„Það er verið að fara yfir þetta og skoða málin. Það eru alls konar nýjar upplýsingar sem eru að koma.“ Þetta eru skilaboðin frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni sem bárust í gegnum upplýsingafulltrúa almannavarna.
Þórólfur greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna í dag að bólusetningar með bóluefni AstraZeneca hefði verið stöðvaðar tímabundið eftir að tilkynnt var um alvarlegar aukaverkanir, blóðtappa og andlát, eftir bólusetningu í Danmörku.
Danir, Norðmenn, Eistar, Lettar, Litháar og Lúxemborgarar hafa sömuleiðis stöðvað notkun bóluefnisins tímabundið.
Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) hefur þó gefið út að Evrópulönd geti haldið áfram að nota bóluefni AstraZeneca á meðan möguleg tengsl milli blóðtappa og bólusetninga eru rannsökuð.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, sagði í samtali við mbl.is í dag að Bretar hafi bólusett 11 milljónir með bóluefni AstraZeneca og segja að það sé ekki hærri tíðni á blóðtappa heldur en í almennu þýði.
„Evrópska lyfjastofnunin hefur ekki gefið út að það eigi að stöðva bólusetningar. Þeir telja enn þá að ávinningurinn sé meiri en áhættan. Það er sérstök skoðun hjá Lyfjagáttanefnd Evrópsku lyfjastofnunarinnar sem fór af stað og við gerum ráð fyrir niðurstöðum í næstu viku. Ég býst við að það séu þær niðurstöður sem við munum horfa til,“ sagði Rúna einnig.