Búið að opna veginn um Kjalarnes

Það er víða vetrarfærð og ekkert vit í að leggja …
Það er víða vetrarfærð og ekkert vit í að leggja af stað í ferðalag án þess að kanna með færð áður.

Vegurinn um Kjalarnes var opnaður klukkan 6 í morgun en loka þurfti veginum vegna slæms skyggnis í hádeginu í gær. 

Það er víða ófært enda vonskuveður í gær. Starfsmenn Vegagerðarinnar eru að fara yfir stöðu mála og setja inn tilkynningar um leið og þær berast.

Holtavörðuheiði er lokuð, Vatnsskarð og eins Hringvegurinn í Húnavatnssýslum. Hólasandur er ófær og eins Fljótsheiði. Víðast hvar snjóþekja eða hálka og töluverður skafrenningur á Norðausturlandi. Þæfingur er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og þungfært um Dettifossveg.

Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla er lokaður vegna snjóflóðahættu. Hættustig er í gildi. Eins er Siglufjarðarvegur lokaður vegna snjóflóðahættu. Vegurinn um Héðinsfjörð er ófær. Vegurinn um Víkurskarð er lokaður vegna veðurs. Þæfingur er á Öxnadalsheiði, Þverárfjalli, milli Hofsóss og Fljóta og á Grenivíkurvegi. Dynjandisheiði er lokuð vegna veðurs. Í Súðavíkurhlíð er búið að setja veginn á óvissustig vegna snjóflóðahættu. Klettsháls er ófær vegna veðurs. Þröskuldar eru lokaðir vegna veðurs. Þungfært er á Steingrímsfjarðarheiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert