Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður velferðarnefndar, segist búast við því að starfsfólki á hjúkrunarheimilum í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjum, þar sem skipulagsbreytingar eru yfirvofandi, muni halda sínu starfi.
„Það er ekki verið að loka neinni þjónustu eða hjúkrunarrýmum. Það þarf áfram að vinna þau störf sem hafa verið unnin á þessum hjúkrunarheimilum og starfsfólkinu mun væntanlega bjóðast að starfa áfram við sömu verkefni og það hefur unnið að hingað til,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.
Þetta segir hann þegar hann er spurður um ummæli Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingar og formanns velferðarnefndar, þess efnis að um 140 starfsmönnum hjúkrunarheimilanna verði sagt upp, þar sem Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Austurlands munu taka yfir starfsemina á næstunni.
Nefndinni barst bréf þessa efnis sem Helga greindi frá á þingfundi í dag en ýmsir þingmenn hafa gagnrýnt málflutninginn.