Ekkert saknæmt átti sér stað í Teigahverfinu í Reykjavík í gær en lögreglan sinnti útkalli þar fyrir hádegi. Þetta segir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Enginn var því handtekinn en Gunnar Rúnar vill ekki tjá sig frekar um það sem gerðist.
Mbl.is greindi frá því í gær að lögreglan hafi verið með talsverðan viðbúnað við Hrísateig. Lögreglubílar, bæði merktir og ómerktir, auk sjúkrabíls hafi verið á staðnum.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var ekki um aðgerðir almennrar deildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að ræða. Samkvæmt myndum sem mbl.is hefur séð var meðal annars sérsveit ríkislögreglustjóra á staðnum.