Erfiðar aðstæður í Baldri

Taug er komin á milli ferjunnar Baldurs og rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar á Breiðafirði, þar sem Baldur varð vélarvana fyrr í dag. Hægt og rólega verður nú reynt að komast í Stykkishólm en ekki er öruggt að hægt verði að koma ferjunni til hafnar í kvöld.

Enn hefur þó ekki tekist að losa akkeri ferjunnar en unnið er að því.

Tuttugu farþegar eru um borð og átta í áhöfn, að sögn Gunnlaugs Grettissonar, framkvæmdastjóra Sæferða sem reka ferjuna. Sæferðir eru í eigu Eimskipa.

Þyrla Landhelgisgæslunnar og rannsóknaskipið Árni Friðriksson sjást út um gluggann …
Þyrla Landhelgisgæslunnar og rannsóknaskipið Árni Friðriksson sjást út um gluggann á Baldri, sem er vélarvana á Breiðafirði. Veðrið er slæmt og illa gengur að losa akkerin. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er erfitt og gríðarlega leiðinlegt gagnvart farþegum okkar,“ segir Gunnlaugur í samtali við mbl.is. Aðstæður eru að hans sögn erfiðar á staðnum og veðrið ekki sérstakt.

Vonast til að hægt sé að leggjast að bryggju 

Veðrið er ástæða þess að óvíst er hvort hægt verði að komast að bryggju í Stykkishólmi í kvöld. Það eru allt að 18 m/s úti á Breiðafirði. Að sögn Gunnlaugs verður metið þegar skipin nálgast land hvort unnt verði að koma farþegum beint í land af ferjunni eða hvort stuðst verði við önnur skip til að koma fólki í land.

Landhelgisgæslan stjórnar aðgerðum á svæðinu og Gunnlaugur segir ákvarðanirnar í þeirra höndum. Varðskipið Þór er á leiðinni frá Helguvík. Það er rétt ókomið á svæðið, eins og sjá má hér.

Ástæða bilunarinnar er enn ókunn en hún tengist túrbínu, sem einnig bilaði í júní í fyrra. „Það er mjög dapurt að þetta skuli hafa gerst aftur,“ segir Gunnlaugur.

Boðið upp á lambalæri

Að sögn Leiknis Fannars Thoroddsen sem er um borð í ferjunni er mannskapurinn rólegur, þó að vissulega sé fárviðri á staðnum. Ljósavélar og fleira virkar og fólk fær lambalæri í matinn sér að kostnaðarlausu.

Árni Friðriksson er með Baldur í togi.
Árni Friðriksson er með Baldur í togi. Ljósmynd/Leiknir Fannar

Óljóst er hvort fólk komist í land með Baldri en þá kemur til greina að flytja það eftir öðrum leiðum. Þar kemur þó á móti að ýmsir eru með bíla eða vörur í ferjunni, sem ríður á að koma einnig í land.

Leiknir var til dæmis á leið í Stykkishólm í von um að fá viðgerð á bát sínum til að fara síðan á grásleppuvertíð. Þetta setur strik í reikninginn.

Ferjan Baldur bilaði einnig síðasta sumar og bilunin var í …
Ferjan Baldur bilaði einnig síðasta sumar og bilunin var í sömu túrbínu. Það segir rekstrarstjóri ferjunnar „mjög dapurt.“ mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert