Fimm stofur enn ónothæfar vegna lekans

Lekinn var um 500l/s og stóð í 75 mínútur áður …
Lekinn var um 500l/s og stóð í 75 mínútur áður en náðist að loka fyrir og runnu því út um 2.250 tonn af vatni. Kristinn Magnússon

Fimm stórar kennslustofur í Háskóla Íslands (HÍ) eru enn ónothæfar vegna leka sem varð í byggingum skólans í janúarmánuði, að sögn Jóns Atla Benediktssonar, rektors HÍ. Stofurnar verða teknar aftur í notkun þegar endurbótum lýkur.

„Áhrifin af því eru töluverð en starfsfólk Háskólans hefur gripið til ýmissa ráða til að koma kennslunni fyrir annars staðar á meðan við erum í þessari biðstöðu,“ segir Jón Atli.

Sem stendur eru dómskvaddir matsmenn að störfum við að meta umfang tjónsins. Þá er hlutverk þeirra einnig að leggja mat á það hver ber ábyrgð á því að svo fór.

„Á meðan er hreinsunarstarf í bið, en vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir við að koma húsnæði Háskóla Íslands í samt horf eins fljótt og auðið er,“ segir Jón Atli.

Líklegt að frekari skemmdir komi fram

Líklegt er að frekari skemmdir geti komið fram síðar, til dæmis þegar álag eykst á gólfefni, hafi því ekki verið skipt út.

„Þess vegna er afar mikilvægt að finna allar skemmdir og lagfæra allt sem þarf til að koma í veg fyrir að frekara tjón uppgötvist síðar meir,“ segir Jón Atli.

Í byrjun mars fóru fram skýrslutökur vegna lekans. Tekn­ar voru skýrsl­ur af full­trú­um Veitna, VÍS, Mann­vits, SS Verktaks, TM trygg­inga og Varðar trygg­inga.

Matsgerð verður lögð fram af fyrrnefndum dómskvöddum matsmönnum, ef aðilar fella sig ekki við þá niðurstöðu verður framkvæmt yfirmat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert