Horfði á þrepið fyrir utan búðina

Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og forsprakki Römpum upp Reykjavík.
Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og forsprakki Römpum upp Reykjavík. Eggert Jóhannesson

Verkefnið Römpum upp Reykjavík var kynnt við hátíðlega athöfn í dag. Með því er stefnt að því að setja upp hundrað rampa fyrir fólk í hjólastól eins fljótt og auðið er á árinu 2021 í miðbæ Reykjavíkur.

Um er að ræða sjóð með aðkomu fjölmargra fyrirtækja og aðila sem mun standa straum af meginkostnaði fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu.

Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins og helsti styrktaraðili. Hann segir frá því í samtali við mbl.is hvernig hugmyndin að verkefninu fæddist.

„Hún kom bara í sumar. Ég er búinn að búa úti mjög lengi og kom alltaf heim til Íslands svona einu sinni á ári. Við fórum í sumar, þegar við bjuggum í San Fransisco, í miðnæturgöngu með börnin og fórum upp Laugaveginn. Þar var opin matvöruverslun og þar var eitt þrep til að komast inn – og ég komst ekki inn. Börnin fóru með konunni minni inn, á meðan sat ég fyrir utan og horfði á þessa einu tröppu og hugsaði hvað það væri einfalt að laga þetta,“ segir Haraldur Þorleifsson.

Á að vera hægt að gera betur í Reykjavík

Haraldur Þorleifsson og fjölskylda hans fluttu fyrir um níu árum til Tókýó í Japan og voru á flakki þangað til þau fluttu heim núna í vetur. Haraldur segir aðgengismál ótrúlega mismunandi á milli borga og stöðuna í Reykjavík í dag vera í meðallagi. 

„San Fransisco er mjög aðgengileg og New York er mjög óaðgengileg, hlutar af Ítalíu eru frábærir og aðrir hlutar eru mjög slæmir. Það er mjög greinilegt hvar hefur verið farið í átak. Yfirleitt er þetta tengt að einhverju leyti efnahag landsins – af því að þetta eru stundum, sérstaklega í eldri húsum, dýrar framkvæmdir. Ég hef fundið mikinn mun en finnst eins og Reykjavík sem samfélag sem ætti að vera komin mikið lengra.“

Haraldur Þorleifsson, forsprakki Römpum upp Reykjavík, og Ásmundur Einar Daðason, …
Haraldur Þorleifsson, forsprakki Römpum upp Reykjavík, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Eggert Jóhannesson

Næsta skref verkefnisins er að fara í úttektir og leita tilboða hjá aðilum. „Við ætlum að reyna að finna einn aðila sem getur tekið allt verkefnið að sér, og þá mögulega á einhverjum lægri kostnaði. Þetta á að vera fallega gert, á að samræmast hverju húsnæði fyrir sig en ég held samt að þetta geti verið að einhverju leyti stöðluð lausn, sem gæti orðið hagkvæmt líka.“

50 milljónir á sex vikum

Haraldur fékk til liðs við sig marga samstarfsaðila, hann lagði sjálfur fjármuni í verkefnið og á sex vikum var sjóðurinn orðinn 50 milljónir. Verkefnið var samþykkt hjá borginni í lok janúar. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók að sér að vera verndari verkefnisins og tilkynnti á fundi í dag að búið væri að úthluta fyrsta rampinum sem verður fyrir utan verslunina Kokku á Laugavegi. 

Haraldur segist mjög þakklátur öllum stofnfélögum sem komu að verkefninu. Hann segir að það hafi gengið ótrúlega vel að fá stuðningsaðila um borð og margir hafi gefið háar upphæðir eða um 3-5 milljónir hver aðili. 

„Það segir okkur að það er mjög margt fólk sem hefur verið hugsa um þetta og finnst þetta mikilvægt en veit kannski ekki alveg hvernig á að hjálpa til.“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands er verndari verkefnisins. Hann sagði …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands er verndari verkefnisins. Hann sagði í tölu sinni í dag að um væri að ræða fólk sem hugsar í lausnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haraldur notast sjálfur við hjólastól en hann fæddist með vöðvarýrnunarsjúkdóm. „Hann er hægvinnandi. Byrjaði þannig að ég kannski labbaði öðruvísi en aðrir en þegar ég var 25 eða 26 ára þá fór ég í hjólastól. Hann vinnur á hægt og rólega,“ segir Haraldur.

Hann bendir á að rampar gagnist ekki einungis þeim sem nota hjólastól, þeir greiði aðgengi fyrir barnavagna og þeirra sem finnst erfitt að ganga upp tröppur. 

Hvers vegna er byrjað á miðbænum?

„Miðbærinn er náttúrlega miðjan á bænum, þar sem fólk kemur saman. Það þýðir ekki að það séu ekki aðrir mikilvægir staðir, en það er mjög mikið af gömlum húsum niðri í miðbæ sem voru byggð áður en staðlar og kröfur um aðgengi komu. Það þarf að byrja einhvers staðar en það er svo mikið af verkefnum sem þarf að leysa – það er af nógu að taka.“

Haraldur sér fyrir sér að útvíkka verkefnið í framtíðinni og sambærilegri hlutir verði gerðir á landsbyggðinni. „Ég myndi vilja það, annaðhvort við eða ef einhver annar vill standa að svipuðu verkefni þá myndum við styðja það með öllum ráðum og dáð. Allar teikningar okkar verða opnar svo ef einhver vill nýta sér þær, þá er það velkomið.“

Gerðu úttekt á Laugaveginum 

Til gamans má geta að á árlegri ráðstefnu menntavísindasviðs við Háskólann á Íslandi í nóvember 2019 var áhersla lögð á aðgengismál fyrir fatlaða. Nemendur tóku af því tilefni út aðgengismál á Laugaveginum. Sjá má myndband sem unnið var í sambandi við ráðstefnuna hér: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert