Hvöss orðaskipti í þingsalnum

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að mikilvægt væri …
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að mikilvægt væri að fara varlega með upplýsingar sem nefndum berast. Kom þá til hvassra orðaskipta milli hennar og þingmanns. mbl.is/Arnþór

Það kom til hvassra orðaskipta á Alþingi í dag þegar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tók til máls undir dagskrárlið um fundarstjórn forseta.

Til umræðu var trúnaður þingmanna á lokuðum nefndarfundum en fyrr á þingfundinum hafði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, sagt frá bréfi sem velferðarnefnd barst um uppsagnir á hjúkrunarheimilum.

„Það hafa gefist fjölmörg færi á því að spyrja um þessi mál þannig það eitt og sér ætti ekki að vera flókið, að fá svör við einhverju sem fólk telur að eigi erindi við almenning. En það ber að fara með upplýsingar á viðkvæmum tímum, eins og nú er og í þessum málum sem um er rætt, vandlega,“ sagði Bjarkey í lok ræðu sinnar.

„Á viðkvæmum tímum?“ heyrðist þá kallað.

„Eru ekki Covid-tímar? Eru ekki viðkvæmir tímar sem stjórnarandstaðan hér er sífellt að vitna í? Háttvirtir þingmenn hafa ítrekað notað þennan stól til þess að segja að þeirra störf séu með þeim hætti að þeir geti ekki tjáð sig. Það er bara rangt,“ sagði Bjarkey á móti, en inni á milli mátti heyra ógreinanleg framíköll. 

Bað þingmenn um að sýna stillingu

Þá greip Steingrímur J. Sigfússon inn í, eftir að hafa hringt bjöllu forseta ítrekað:

„Forseti telur að það auki ekki virðingu Alþingis að við getum ekki tekið þessa umræðu af stillingu,“ sagði hann.

Þá steig Helga Vala upp í pontu og sagði:

„Herra forseti. Ég kem hér upp til þess að bera að mér sakir þegar þingmenn stjórnarflokkanna og hæstvirtur heilbrigðisráðherra saka mig um að hafa brotið einhvern trúnað.

Í fréttatilkynningu, sem er á vef Stjórnarráðsins, stendur, að í þingskapalögum er afdráttarlaust kveðið á um að trúnaður skuli ríkja um málefni sem rædd eru á lokuðum nefndarfundum. Í þingskapalögum er talað um að það eigi ekki að vísa í orð einstaklinga. Þetta er tvennt ólíkt. Ef við fengjum ekki að ræða málefni sem eru til umfjöllunar í nefndum, þá fengjum við ekki að ræða málefnin á opinberum vettvangi,“ sagði Helga Vala.

Telur þingmenn áður hafa greint frá ummælum á nefndarfundum

„Af því að háttvirtur þingmaður Birgir Ármannsson kom hingað upp og sagði að það mætti að sjálfsögðu ekki gera þetta vil ég fá að vitna í ræðu hans sem flutt var 28. janúar 2021 þar sem hann segir, með leyfi forseta: „Ég var akkúrat á fundi velferðarnefndar þegar Samtök atvinnulífsins komu til að gera grein fyrir sinni umsögn og ég gat ekki skilið fulltrúa þeirra öðruvísi en þannig að samtökin legðust gegn því að farið verði í afmarkaðar breytingar núna“,“ sagði hún.

Tekið skal þó fram að umsagnir sem berast nefndum alþingis eru opinberar og aðgengilegar öllum sem eftir þeim leita.

„Og ég leyfi mér líka að vitna í hæstvirtan heilbrigðisráðherra sem sagði í ræðu: „Ég tók eftir því þegar læknar komu á fund velferðarnefndar að þeirra áhyggjur sneru ekki einungis í raun og veru um launakjör heldur ekki síður um skort á framtíðarsýn fyrir heilbrigðiskerfið í heild,“ sagði hún og lauk tölu sinni með því að gagnrýna misræmi í málflutningi og gjörðum þingmanna hvað þetta varðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert