Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður segir misskilning eða útúrsnúning á skoðunum sínum ráða viðbrögðunum við því að dómsmálaráðherra hafi falið honum að skoða úrbætur í meðferð sakamála, í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
„Þetta kveikti undarleg viðbrögð hjá fólki sem segir mig vera sérstakan andstæðing þolenda kynferðisbrota og vörslumann hagsmuna brotamanna á þessu sviði afbrota. Verkefni mitt varðaði svo sem ekkert sérstaklega þennan flokk afbrota en afstaðan gegn mér gerði það,“ skrifar Jón.
Í greininni stingur Jón Steinar upp á því að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sitji opinn fund þar sem rætt verður um ummæli þeirra í garð Jóns Steinars.
Af skrifunum má ráða að Jón óski eftir fundarhöldunum í glettni en pistilinn endar hann á þessum nótum:
„Ég sendi þessa orðsendingu til Fréttablaðsins, sem sérstaklega hefur tekið þetta mál upp á arma sína. Kæmi til dæmis til greina að Aðalheiður Ámundardóttir lögfræðingur, blaðamaður á Fréttablaðinu, yrði fundarstjóri, en ég hef hana grunaða um að hafa samúð með gagnrýnendum mínum,“ skrifar Jón.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spyr í facebook-færslu sem hún birti í morgun, hvort kynferðisbrot „séu undir“ í vinnu Jóns Steinars Gunnlaugssonar og fullyrðir að dómsmálaráðherra segi svo ekki vera.
Dómsmálaráðherra áréttaði í samtali við mbl.is á þriðjudag að störf Jóns Steinars feli ekki í sér sérstaka úttekt á rannsóknum kynferðisbrota en Jón Steinar var fenginn til þess að vinna að styttingu málsmeðferðartíma í réttarkerfinu.