Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur ekki tilefni til að leggja til harðari aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins en nú eru í gildi.
Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna.
Ný reglugerð vegna faraldursins tekur gildi 18. mars og er sóttvarnalæknir með þá reglugerð í smíðum. Hann segir að hún muni endurspegla tölurnar næstu daga en einn greindist innanlands í gær og var viðkomandi í sóttkví.
Alls hafa fimm greinst innanlands og sagði Þórólfur öll smitin tengjast landamærasmiti frá síðustu helgi.
Þórólfur sagði enn fremur að hann myndi ekki leggja til neinar tilslakanir á næstunni.