Myndskeið: Verða í ferjunni í nótt

Allir tuttugu farþegar ferjunnar Baldurs ákváðu að halda kyrru fyrir í ferjunni í nótt, eftir að þeim var boðið að fara með þyrlu Landhelgisgæslunnar í land fyrr í dag, þegar Baldur varð vélarvana.

Landhelgisgæslan sagði frá þyrluboðinu í tilkynningu í kvöld en síðan hafa mbl.is borist skeyti frá farþegum um borð, þar sem sagt var að boðinu hafi ekki verið komið á framfæri við alla farþega.

Ferjan varð vélarvana á miðjum Breiðafirði á leið suður á bóg í dag og rannsóknarskipið Árni Friðriksson er að toga hana í átt að Stykkishólmi, þar til sérstakur dráttarbátur tekur við undir morgun og kemur ferjunni að bryggju. Stefnt er að því að ferjan geti lagst að bryggju í fyrramálið.

Veður er slæmt, sem gerir aðstæðurnar töluvert erfiðari. Áhafnirnar eru þrautþjálfaðar og enginn í hættu, en gert er ráð fyrir að dráttarbátur frá Faxaflóahöfnum verði kominn til Baldurs um fimmleytið og taki þá við.

Bíða um borð

Ásamt farþegunum tuttugu eru átta úr áhöfninni um borð og fer sæmilega vel um fólk. Ljósavélar virka og eldað er ofan í mannskapinn. Fjöldi farþega er með muni um borð í ferjunni, sem þeir vilja koma í landi, eins og bifreiðar eða varning.

Baldur var dreginn af rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni vegna vélarbilunar í …
Baldur var dreginn af rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni vegna vélarbilunar í dag. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Skipin þurfa í Breiðafirði að gæta sín sérstaklega á skerjum á svæðinu. Þór er í fylgd með ferjunni en tók ekki við taumnum af Árna Friðrikssyni.

Gríðarlega leiðinlegt

Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða sem reka ferjuna, sagði við mbl.is í dag að honum þætti atburðarás dagsins gríðarlega leiðinleg gagnvart farþegum ferjunnar. Mjög dapurt væri að ferjan hafi bilað aftur í dag af sömu ástæðu og hún bilaði síðasta sumar.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps krafðist þess í bókun fyrr í dag að stjórnvöld útveguðu aðra ferju til siglinga á Breiðafirði án þess að öryggi farþega sé stefnt í hættu.

Allar leiðir á sunnanverða Vestfirði eru ófærar án ferjunnar, flugs á Bíldudal og án betri færðar á Klettshálsi, sem þessa stundina er lokaður. Sveitarstjórnin talaði þar um algerlega óásættanlegt ástand í samgöngum.

Fréttin var uppfærð eftir samtöl við farþega um borð.

Þyrla Landhelgisgæslunnar og rannsóknaskipið Árni Friðriksson sjást út um gluggann …
Þyrla Landhelgisgæslunnar og rannsóknaskipið Árni Friðriksson sjást út um gluggann á Baldri, sem er vélarvana á Breiðafirði. Veðrið er slæmt en varðskipið Þór er á leiðinni og mun draga Baldur að Stykkishólmi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert