Ný slökkvistöð eykur öryggi

Fjölbreytt bæjarmynstur. Mörg falleg hús eru í Flatey, frá vinstri: …
Fjölbreytt bæjarmynstur. Mörg falleg hús eru í Flatey, frá vinstri: Bents-hús, Vinaminni, risið á Vertshúsi, Vorsalir, Vogur, Ásgarður og Sólheimar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur samþykkt að úthluta Flateyjarveitum lóð undir slökkvistöð við Tröllenda 7 í Flatey. Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri segir að lóðin sé eingöngu ætluð fyrir hús vegna tækja til brunavarna og segist hún gera sér vonir um að það rísi í ár. Stærð hússins verður um 80 fermetrar og kostnaður er áætlaður rúmlega 20 milljónir.

Flateyjarveitur, sem eru í eigu húseigenda í Flatey, reisa húsið og koma upp búnaði, en sveitarfélagið mun leigja húsið, væntanlega til 15 ára. Ingibjörg segir að nú sé slökkvivagn með búnaði, eins og sjódælum og slöngum, fyrir hendi í Flatey. Með nýja húsinu komist aðstaða fyrir búnað undir þak. Til standi að kaupa dráttarvél og haugsugu eða tank, sem muni standa tilbúinn til að bæta við vatnsforðann, og einnig annan búnað sem verði til að auka öryggi þeirra sem dvelja í Flatey.

Fyrsta skrefið

Hún segir að þetta sé fyrsta skref í uppbyggingu slökkvibúnaðar, en til framtíðar megi auka búnað og dælugetu. Flateyjarveitur hafi byggt upp vatnsveitu af myndarskap og hafi sveitarfélagið ákveðið að fara í samstarf við veitufélagið um slökkvistöðina fyrir hönd eyjarskeggja. Brunahanar sem eru í eyjunni voru settir upp af Flateyjarveitum í tengslum við vatnslagnir að gömlu byggðinni í Flatey. Þeir eru nýtanlegir að því marki sem vatn í vatnsveitutanki veitunnar dugar til, en eins og staðan er þá er vatn flutt út í Flatey með Baldri.

Í fundargerð stýrihóps um byggingu slökkvistöðvar í Flatey frá 27. janúar segir svo m.a.: „Umræður áttu sér stað um mikilvægi þess að líta ekki á byggingu slökkvistöðvar sem endastöð eldvarna í Flatey heldur fyrsta skrefið í heildstæðri vinnu varðandi eldvarnir í eyjunni. Starfshópurinn leggur til að áframhaldandi vinna, um þarfagreiningu á búnaði og næstu skref í eldvörnum, eigi sér stað í starfshópnum, með fulltrúa frá Reykhólahreppi, fulltrúa frá Flateyjarveitum og fulltrúa úr framfarafélagi Flateyjar ásamt slökkviliðsstjóra.“

Þyrping 40 gamalla timburhúsa

Stöðin verður miðlæg, nánast á háeyjunni, á milli annars vegar gamla þorpsins og hins vegar Krákuvarar og Læknishússins, en á síðarnefndu stöðunum er heils árs búseta. Ingibjörg segir að í Flatey séu merkar og viðkvæmar byggingar, flestar úr timbri, og sé mikilvægt að hafa búnað tiltækan komi eldur upp í eyjunni.

Í greinargerð með aðalskipulagi Flateyjar sem gilti til 2018 segir svo meðal annars: „Þorpið býr yfir sérstökum gæðum sem eru bundin umhverfi húsanna, þorpinu sem heild og einstökum húsum, sem hvergi eru enn þá til staðar í sama mæli á landinu. Um er að ræða þyrpingu um 40 gamalla timburhúsa sem mynda fjölbreytt bæjarmynstur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert