Vísindaráð almannavarna ræðir á fundi sínum á morgun þann möguleika að hugsanlegt eldgos á Reykjanesskaga geti náð niður að sjó í suðri.
Víkurfréttir greindu fyrst frá þessum hugmyndum en Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, staðfestir í samtali við mbl.is að til standi að ræða þennan möguleika á fundinum á morgun.
„Ef við erum að túlka enda gangsins rétt eru rétt nokkrir kílómetrar út í sjó,“ segir Kristín.
Kvikugangurinn sem nær frá Keili að Fagradalsfjalli heldur áfram að stækka og er mesta kvikuflæðið sem fyrr bundið við suðurenda hans sem liggur undir og nærri Fagradalsfjalli. Svæðið til sjávar styttist eftir því sem kvikugangurinn lengist.
Möguleikinn verður sem fyrr segir tekinn fyrir á fundi morgundagsins. „Við viljum bara vera einu skrefi á undan, þannig að ekkert komi okkur á óvart,“ segir Kristín.