Segir uppsagnir í aðsigi á hjúkrunarheimilum

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, segir að 140 manns á …
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, segir að 140 manns á hjúkrunarheimilum á landsbyggðinni verði sagt upp vegna skipulagsbreytinga. mbl.is/Hari

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður velferðarnefndar, sagði á þingfundi í dag frá alvarlegu béfi sem henni barst, þess efnis að stjórnvöld hafi lagt til að um 140 starfsmönnum hjúkrunarheimila í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjum, verði sagt upp.

Sveitarfélögin séu nauðbeygð til þess að gera slíkt vegna breytts rekstrarfyrirkomulags hjúkrunarheimila, nánar tiltekið yfirtöku Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) á málaflokknum.

„Katrín Jakobsdóttir, hæstvirtur forsætisráðherra, veit af þessu. Hún varð vöruð við og það var núna að koma í ljós að ríkisstjórnin ætlar ekki að hlífa þessum konum og fólki af erlendum uppruna heldur gera sveitarfélögunum að segja upp 140 manns núna á þessum tímum,“ sagði Helga Vala í umræðu um fundarstjórn forseta á þingi í dag.

Telja að trúnaðarbrestur hafi átt sér stað

Nokkrar umræður fóru fram í þinginu um réttmæti þess að gefa upp upplýsingar sem fram koma á nefndarfundum og skiptust þingmenn í tvær fylkingar hvað það varðar; stjórnarandstaðan taldi upplýsingarnar eiga við almenning en stjórnarliðar töldu að trúnaður ætti að ríkja á nefndafundum.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvaðst ekki hafa setið fund velferðarnefndar en gagnrýndi tilvitnun Helgu Völu:

„Ég vil árétta það að það er tekið fram í 19. gr. þingskaparlaga að það eigi ekki að vitna beint til gesta með það sem kemur fram á lokuðum fundi,“ sagði hann.

Því næst taldi þingmaðurinn upp tegundir funda á Alþingi, þ.e. lokaðir nefndarfundir, fundir opnir fjölmiðlum og almennt opnir fundir.

„Það er ekki þannig að það sé verið að setja lok á einhvern pott, það er bara verið að vísa til þess að menn eigi að geta tjáð sig á nefndarfundum án þess að í það sé vitnað,“ sagði hann í lok ræðu sinnar.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að ekki eigi að vitna …
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að ekki eigi að vitna beint til gesta á lokuðum nefndarfundum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert