Jarðskjálfti sem mældist 3,6 varð klukkan 6:46 og varð hann, líkt og aðrir stærri skjálftar síðan síðdegis í gær, í kringum syðsta enda Fagradalsfjalls eða frá Geldingadal að Nátthaga.
Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það sé erfitt að greina hvort skjálftarnir í nótt og í morgun séu vegna þess að kvikugangurinn sé að færast í suður eða hvort um spennubreytingar sé að ræða. Spennusviðsbreytingarnar liggja á þessu svæði og jarðskjálftarnir raðast í norður-suður-sprungu sem jarðskjálftar á Reykjanesi sem og á Suðurlandi liggja oft á. Erfitt getur verið að greina þar á milli.
Myndirnar sem var farið yfir á fundi vísindaráðs almannavarna í gær eru síðan á þriðjudag og þær staðfesta ekki að gangurinn sé kominn þetta langt suður. Úrvinnsla á gervihnattamyndum sem bárust í gærmorgun og nýjustu gps-mælingar benda til þess að kvikusöfnun sé áfram einskorðuð við suðurenda kvikugangsins sem nær frá Keili að Fagradalsfjalli. Sá staður er áfram talinn vera líklegasti staðurinn komi til eldgoss.
Þannig að það getur hafa orðið einhver breyting frá því í fyrradag og því ekki vitað hvort gangurinn er að þrýsta sér út eða ýta á skorpuna sem er fyrir framan og valda spennubreytingu og jarðskjálftum á því svæði segir Salóme í samtali við blaðamann mbl.is.
Hún segir að ekki sé hægt að tala um óróa en skjálftavirknin hafi komið í hviðum. Eins er viðvarandi smáskjálftavirkni en ekki þannig að hægt sé að tala um óróa.
Eftir fund vísindaráðs í gær kom fram að gps-mælingar bendi til þess að hægt hafi örlítið á kvikuflæði, en óvissan í þeim mælingum er þó talsverð þar sem kvikan liggur mjög grunnt í jarðskorpunni (á um 1 km dýpi). Það er þó mat vísindaráðs að mikilvægt sé að fylgjast náið með virkninni í suðurhlíðum Fagradalsfjalls til að sjá hvort hún er vísbending um að kvikugangurinn sé að stækka til suðurs.
„Eins og staðan er metin núna þá situr kvikan mjög grunnt, á 1-1,5 km dýpi. Það er mikilvægt að átta sig á því að ef kvika brýtur sér leið alla leið upp á yfirborðið þá má búast við að það gæti gerst án mikilli átaka eða skjálftavirkni.
Dæmi um slíkt má sjá í gosinu sem hófst á Fimmvörðurhálsi árið 2010. Þá sáust ekki skýr merki um upphaf goss á mælitækjum Veðurstofunnar og voru það fréttir frá sjónarvottum sem staðfestu að kvika væri komin upp. Í þessu ljósi hefur Veðurstofan sett upp vefmyndavélar sem hægt er að notast við til að fylgjast með því ef kvika kemur upp,“ segir á vef Veðurstofu Íslands en hér má lesa nánar um þróun mála.