Stöðva tímabundið notkun bóluefnis AstraZeneca

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Ákveðið hefur verið að stöðva bólusetningu með bóluefni AstraZeneca tímabundið hér á landi. Er það gert til að gæta fyllsta öryggis eftir að notkun bóluefnisins var stöðvuð í Danmörku, Eistlandi, Lettlandi, Lúxemborg, Litháen og Noregi.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna.

Fram kom í frétt danska ríkisútvarpsins að tilkynnt hefði verið um alvarlegar aukaverkanir, blóðtappa eftir bólusetningu AstraZeneca, og ein tilkynning varðaði andlát. Af þeim sökum verður notkun bóluefnisins stöðvuð í tvær vikur. Enn fremur hafi borist upplýsingar um dauðsfall í Austurríki.

Talsmaður forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, segir að ekki verði gert hlé á bólusetningum þar í landi með bóluefni AstraZeneca. Þeim hafi verið tjáð að bóluefnið sé bæði öruggt og með mikla virkni. Því eigi fólk ekki að hika við að mæta í bólusetningu fái það boð um að mæta.   

Þórólfur benti á að Lyfjastofnun Evrópu telji ekki orsakasamhengi á milli blóðtappanna og bóluefnisins en málið sé í nánari skoðun og von sé á frekari upplýsingum frá Lyfjastofnuninni.

Enn fremur benti Þórólfur á að bólusetningar hér á landi hafi gengið vel og hann hafi ekki fengið neinar upplýsingar um alvarlegar aukaverkanir hjá fólki sem var bólusett með bóluefni Astra Zeneca.

Samtals hafa 8.882 verið bólusettir með bóluefni AstraZeneca hér á landi, eða samtals 26,7% af þeim 33.289 sem hafa verið bólusettir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert