Þar sem jörðin nötrar

Otti kortleggur leiðangurinn með blaðamanni áður en lagt er í …
Otti kortleggur leiðangurinn með blaðamanni áður en lagt er í hann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er þó lán í óláni að það séu ekki útköll vegna ófærðar og óveðurs ofan í þetta allt saman.“

Þannig kemst Otti Sigmarsson að orði, þar sem hann situr við stýrið á jeppa björgunarsveitarinnar Þorbjarnar snemma morguns síðastliðinn laugardag. Otti er félagi í sveitinni, sem hefur vegna skjálftahrinunnar þurft að sinna fjölda verkefna og útkalla á undanförnum dögum og vikum.

Og bílstjórinn hefur lög að mæla. Það er ekki snjór í augsýn þennan laugardagsmorgun og þótt kalt sé í lofti verma geislar sólar leiðangursmenn, sem halda í austur frá Grindavík og svo norður frá Suðurstrandarvegi, fram hjá öryggislokunum og upp á Núpshlíðarháls.

Búist til ferðarinnar í Grindavík. Varpinn á kerrunni.
Búist til ferðarinnar í Grindavík. Varpinn á kerrunni. mbl.is/Skúli Halldórsson

Fararskjótarnir: Þrír jeppar, þar af einn frá björgunarsveit Hafnarfjarðar, og þrjú fjórhjól. Í togi eins jeppans er kerra hlaðin vörubrettum ásamt fjarskiptaendurvarpa.

Tilgangur ferðarinnar er sá að koma varpanum fyrir ofarlega á hálsinum, til að tryggja betra fjarskiptasamband á svæðinu á þeim slóðum þar sem lík­leg­ast þykir að eld­gos muni eiga sér stað, eins og greint var frá á mánudag.

Tveir blaðamenn mbl.is fá að slást með í för en markmið þeirra er annað; að finna vefmyndavél miðilsins annan stað í ljósi nýjustu spáa um hvar vænta megi jarðelda.

Sprunga í Suðurstrandarvegi. Út frá henni má sjá öllu meiri …
Sprunga í Suðurstrandarvegi. Út frá henni má sjá öllu meiri sprungu í hrauninu. mbl.is/Skúli Halldórsson

Kom til greina að setja upp fjöldahjálparstöð

Daginn og kvöldið fyrir leiðangurinn varð Grindavíkurbær rafmagnslaus og varði straumleysið sums staðar í rúma tólf tíma. Liðsmenn sveitarinnar lögðu þá allt kapp á að tryggja vara­afl á mikilvægum stöðum.

Sett var upp rafstöð við hjúkr­un­ar­heim­il­ið í bæn­um, önnur við fjar­skipta­stöð Mílu sem held­ur uppi net­sam­bandi og sú þriðja til að keyra varaafl inn í grunnskólann, Hópskóla. Þá var keyrt upp rafmagn á björgunarsveitarhúsinu sem er stjórnstöð almannavarna á svæðinu.

Svo fór að rafmagn komst aftur á fyrir miðnætti aðfaranótt laugardags.

Morguninn eftir bendir Otti blaðamanni á að björgunarsveitin hefði haft góða ástæðu til að koma upp rafstöð við skólann. Ef setja þurfi upp fjöldahjálparstöð miða áætlanir við að Hópskóli hýsi hana.

Sveitin hafi satt að segja verið nálægt því að virkja slíka stöð.

„Fjöldahjálparstöð er kannski dálítið neikvætt orð, þar sem það getur þýtt að fólk sé í vandræðum og komist hvergi annað. Við brugðum frekar á það ráð að opna skólann svo að fólk gæti komið og hlýjað sér og fengið sér heitt kaffi ef þörf væri á. Við komum þannig í raun upp einhvers konar upplýsingamiðstöð sem fólk gat leitað til.“

Á leið upp hálsinn.
Á leið upp hálsinn. mbl.is/Skúli Halldórsson

Leið betur þegar skólinn lýstist upp

Hrina sterkra skjálfta og langvarandi óvænt rafmagnsleysi fór ekki vel ofan í íbúa Grindavíkur. Óheppilegur tími, sagði bæjarstjórinn við blaðamann um rafmagnsleysið.

„En um leið og við settum rafstöðina í gang við skólann þá lýstist skólinn upp og sömuleiðis bílastæðið. Og við fengum að heyra það frá nokkrum bæjarbúum í kjölfarið að þá hefði þeim liðið betur,“ segir Otti.

„Þarna gátu Grindvíkingar að minnsta kosti séð einhverja lýsingu í bænum og að fólk var að vinna í þessu.“

Hann bendir á að einnig hafi drifið þangað hóp barna sem hóf að spila körfubolta á upplýstum vellinum við skólann.

„Það er stór ákvörðun að opna fjöldahjálparstöð,“ bætir hann við, á sama tíma og hann keyrir varlega upp hálsinn. Lofti hefur verið hleypt úr dekkjum Ford-jeppans til að fá betra grip í grýttri hlíðinni.

 „Við vorum mjög nálægt því á tímapunkti en gerðum það ekki.“

Margar brattar brekkur eru á slóðanum.
Margar brattar brekkur eru á slóðanum. mbl.is/Skúli Halldórsson

Einbjörn og tvíbjörn

Áfram heldur leiðin og að því kemur að jeppinn mætir ofraun sinni. Síðasta brekkan upp á hálsinn reynist of brött, þótt hinir jepparnir tveir hafi þegar drifið upp. Ástæðan er líklega kerran í eftirdragi. Hún vegur hátt í tonn með öllu, giskar Otti á.

Liðsmenn sveitarinnar eru öllu búnir og eru fljótir að draga spil úr jeppa björgunarsveitar Hafnarfjarðar niður í Ford-jeppann með kerruna. Teygja er einnig leidd frá efsta jeppanum, sem tilheyrir Þorbirni, í jeppann frá Hafnarfirði til að halda honum í stað.

Blaðamenn mbl.is stökkva líka út í von um að létta fargið.

Liðsmenn voru fljótir að draga spil í jeppann.
Liðsmenn voru fljótir að draga spil í jeppann. mbl.is/Skúli Halldórsson

Einbjörn togar í tvíbjörn og tvíbjörn togar í þríbjörn. Eða öllu heldur Þorbjörn.

Jepparnir bera nefnilega allir nöfn til að auðkenna þá í fjarskiptum og nefnist þessi Þorbjörn 2.

Efstur er Þorbjörn 1 og í miðjunni er Spori 1. Þorbjörn 1 er einmitt sá sem naut þjónustu sex vélvirkja þegar allt leit út fyrir að gos væri í vændum á miðvikudag fyrir viku.

Allt kemur þó fyrir ekki. Bíllinn bifast varla upp brekkuna.

Einbjörn togaði í tvíbjörn og tvíbjörn í þríbjörn.
Einbjörn togaði í tvíbjörn og tvíbjörn í þríbjörn. mbl.is/Skúli Halldórsson

Strekkti beltið fastar

Brugðið er á það ráð að tvöfalda spilið, þ.e. tengja það tvívegis á milli jeppanna. „Þetta er dobblun, sem tvöfaldar átakið en við þurfum þá að fara helmingi lengra,“ segir Ingólfur Haraldsson, bílstjórinn á Spora.

Og nú gengur þetta upp. 

Þá er aðeins ein hindrun fram undan. Norðar á hálsinum þarf að fara um brattan hliðarhalla og er Otti nú með hugann við hann. „Það kemur hérna staður á eftir þar sem hallinn er alveg óþægilega mikill,“ segir hann. „Við þurfum öll að stoppa þar og jafnvel halda við kerruna.“

Jeppinn á leið um hliðarhallann.
Jeppinn á leið um hliðarhallann. mbl.is/Skúli Halldórsson

Þegar komið er að hallanum fara allir aftur úr jeppanum nema bílstjórinn. Þá fær einn björgunarsveitarmanna sér sæti á kerrunni, til að sporna við því að hún velti. Löturhægt fer jeppinn yfir og heldur takinu efst í brekkunni. Kerran fylgir og endurvarpinn situr sem fastast á henni.

Umhverfis okkur er hrikaleg náttúra Reykjanesskagans, með hraunbreiðum frá fjöllum og í sjó fram. Engan þarf að undra að jörð hrærist hér nú að nýju.

Til suðurs af hálsinum blasir við opið Atlantshaf.
Til suðurs af hálsinum blasir við opið Atlantshaf. mbl.is/Skúli Halldórsson

„Ég strekkti nú beltið alveg fastar þarna,“ játar Otti og hlær í samtali við blaðamann þegar á leiðarenda er komið.

Þaðan má sjá Fagradalsfjall, Stóra-Hrút, Litla-Hrút, Sandfell og Keili, svo dæmi séu nefnd um þau örnefni sem Íslendingar hafa fengið að kynnast í fréttum síðastliðnar vikur.

Uppi á hálsinum. Björgunarsveitarfólk býr sig undir að koma endurvarpanum …
Uppi á hálsinum. Björgunarsveitarfólk býr sig undir að koma endurvarpanum fyrir. mbl.is/Skúli Halldórsson

Gleypir fjarskiptin í sig

Landslagið austur af Fagradalsfjalli er hæðótt og auðvelt að detta úr sambandi við umheiminn. Þess vegna ríður á að koma endurvarpanum upp til að tryggja fjarskipti á svæðinu.

Otti bendir einnig á hraunbreiðurnar: „Ef þú kemur inn í hljóðverið hjá Ríkisútvarpinu og sérð hvernig veggirnir eru bólstraðir – hraunið virkar alveg eins. Þetta dregur úr öllu fjarskiptasambandi og gleypir það hreinlega í sig.“

Á meðan björgunarsveitin kemur endurvarpanum kirfilega fyrir á hálsinum ganga blaðamenn aðeins ofar, í því skyni að finna gott sjónarhorn fyrir vefmyndavélina úr því að spár um eldsuppkomu hafa breyst frá því sem fyrst var talið.

Tekst það mætavel, þótt tækniörðugleikar hafi síðar komið upp. Unnið er að lagfæringu.

Horft í átt að Keili og Litla-Hrút af Núpshlíðarhálsi.
Horft í átt að Keili og Litla-Hrút af Núpshlíðarhálsi. mbl.is/Skúli Halldórsson

Vaknaði við drunur

Á leiðinni aftur til Grindavíkur berst talið að skjálftahrinunni sem vart hefur linnt frá því hún hófst með látum 24. febrúar. Grindvíkingar finna óþægilega vel fyrir henni, enda í raun næsta byggð við upptök skjálftanna.

Otti nefnir að eina nóttina hafi hann vaknað við drunur sem bárust inn um opinn gluggann hjá honum. Í kjölfarið bjóst hann að fenginni reynslu við skjálfta.

„En um leið og hann kom, og húsið nötraði allt, þá brá mér samt svo.  Ég vissi alveg hvað var að fara að gerast en samt brá mér svona. Ég sofnaði ekkert aftur þá nótt. Alveg ferlegt,“ segir hann og hlær.

Sandfell í forgrunni. Handan þess fyrir miðju rís Fagradalsfjall. Vinstra …
Sandfell í forgrunni. Handan þess fyrir miðju rís Fagradalsfjall. Vinstra megin á milli þeirra er Stóri-Hrútur. mbl.is/Skúli Halldórsson

Jörðin nötraði stanslaust

Skjálftinn sá var þó ekki sá mesti sem þá hafði fundist í bænum. Þrátt fyrir tölur upp á 5,7 og 5,1 og fleiri skjálfta í kringum 5 að stærð, þá hafði skjálfti upp á 4,1 valdið mestu tjóni. Upptökin voru enda við norðurenda bæjarins, eða mitt á milli bæjarfjallsins Þorbjarnar og Grindavíkur. 

„Þá hrundi úr hillum og sturtuglerið okkar brotnaði,“ nefnir Otti sem dæmi. „Það er langstærsti skjálftinn sem fólk hefur fundið hér.“

Meira var þó enn í vændum, eins og ljóst varð þá um nóttina, aðfaranótt sunnudags, þegar mikil skjálftahrina reið yfir í nágrenni Grindavíkur. Í samtali við blaðamann nú í gær sagði Otti blaðamanni að sú nótt hefði verið hræðileg.

„Nú geng­ur yfir gríðarlega öfl­ug skjálfta­hrina og ekki ólík­legt að hver ein­asti Grind­vík­ing­ur sé nú vak­andi enda hrein­lega nötr­ar jörðin stans­laust hérna þessa stund­ina,“ sagði í tilkynningu frá sveitinni til Grindvíkinga strax þá nótt í miðri hrinunni. „Eins og áður erum við á tán­um og lof­um að láta ykk­ur vita um leið og ein­hver hætta er á ferðum.“

Enn og aftur til taks ef þörf krefði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert