Víða ekkert ferðaveður

Vetrarfærð er í flestum landshlutum og víða ekkert ferðaveður. Hvassviðri er um allt vestanvert landið og víða skafrenningur og blint. Búið er að opna veginn um Kjalarnes. Veðurstofan er með gular veðurviðvaranir í gildi fyrir vestan- og norðvestanvert landið. 

Vegurinn um Holtavörðuheiði er lokaður vegna veðurs og beðið er með mokstur. Víðast hvar snjóþekja eða hálka og einhver skafrenningur á Vestfjörðum. Vegurinn um Þröskulda er lokaður vegna veðurs. Vegurinn um Klettsháls er ófær vegna veðurs. Vegurinn um Dynjandisheiði er lokaður vegna veðurs. Búið er að setja veginn um Súðavíkurhlíð á óvissustig vegna snjóflóðahættu. Vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði er ófær vegna veðurs.

Á Norðurlandi er víðast hvar ófært og stórhríð. Siglufjarðarvegur er lokaður vegna snjóflóðahættu. Ólafsfjarðarmúli er lokaður vegna snjóflóðahættu. Hættustig er í gildi. Vegurinn um Víkurskarð er lokaður vegna veðurs.

Á Norðurlandi er víðast hvar ófært og stórhríð og beðið með mokstur víðast hvar vegna veðurs. Unnið er að mokstri milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, á Vatnsskarði og á Öxnadalsheiði. 

Á Norðausturlandi er víðast hvar þæfingur eða snjóþekja. Þungfært er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og um Dettifossveg. Vegurinn um Hólasand er ófær vegna veðurs, Fljótsheiði ófær vegna veðurs. Þæfingur og éljagangur er á Fjarðarheiði en mokstur stendur yfir. Hreindýrahjarðir eru víða við veg á Austurlandi og hafa m.a. sést á Fagradal, við álverið á Reyðarfirði, í Álftafirði og Lóni. Hreindýrahjörð hefur m.a. sést á Breiðamerkursandi og eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát á þessum svæðum.

Búið er að setja á aukaferð með ferjunni Baldri í dag, fimmtudag. Brottför verður kl. 9:00 frá Stykkishólmi og kl. 12:00 frá Brjánslæk. Ekki verður stoppað í Flatey í þessari aukaferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert