Virki betur gegn hættulegri afbrigðum

Bóluefni Janssen, sem er í eigu Johnson & Johnson, er …
Bóluefni Janssen, sem er í eigu Johnson & Johnson, er svokallað veiruferjubóluefni. Einungis þarf að gefa einn skammt af því. AFP

Bóluefni belgíska lyfjafyrirtækisins Janssen, sem er í eigu Johnson & Johnson, fékk skilyrt markaðsleyfi á Íslandi í dag.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir virkni bóluefnisins almennt vera um 67% en er þó meiri gegn nýjum og hættumeiri afbrigðum veirunnar.

Bóluefnið var prófað á mjög stóru þýði, um 44 þúsund manns, í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku og Suður-Afríku. Virknin var á bilinu 64-72%. Þrátt fyrir að virkni annarra bóluefna hafi mælst meiri segir Rúna að virkni bóluefnis Janssen sé mjög góð.

„Bæði Moderna og Pfizer er með hærri verkun en bæði AstraZeneca og Janssen. Þau [síðarnefndu] eru svipuð að því leytinu til að þau eru svokölluð veiruferjubóluefni,“ útskýrir Rúna.

Mjög góð svörun fyrir bóluefni

Þá tekur hún fram að rannsóknir á bóluefni Janssen hafi náð yfir önnur afbrigði sem voru ekki til þegar fyrstu bóluefni komu á markað og teljast vera hættulegri eða meira smitandi, sem dæmi um slík má nefna afbrigði sem kennd eru við Bretland, Brasilíu og Suður-Afríku.

„Það var sérstaklega skoðað fyrir þessum afbrigðum sem voru ekki þegar hin bóluefnin komu á markað. Þar var svörun á bilinu 77% til 84% í þeim hluta. Það verður að segja eins og er að þetta þykir mjög góð svörun yfirhöfuð með bóluefni,“ segir hún einnig.

Ekki er komið á hreint hvenær fyrstu skammtarnir af bóluefni Janssen berast til landsins en rætt hefur verið um aprílmánuð í því samhengi. Rúna býst þó við því að eftir að bóluefnið fær formlega markaðsleyfi í Evrópu þá verði gefnar út afhendingardagsetningar fljótlega í kjölfarið.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Ljósmynd/Aðsend

Skoða sérstaklega tengsl bóluefnis við blóðtappa

Spurð um þær vendingar að bólusetningar með bóluefni AstraZeneca hafi verið tímabundið stöðvaðar á meðan tengsl milli þess og blóðtappa séu rannsökuð segir Rúna lítið nýtt að frétta af því.

„Evrópska lyfjastofnunin hefur ekki gefið út að það eigi að stöðva bólusetningar. Þeir telja ennþá að ávinningurinn sé meiri en áhættan. Það er sérstök skoðun hjá lyfjagáttanefnd Evrópsku lyfjastofnunarinnar sem fór af stað og við gerum ráð fyrir niðurstöðum í næstu viku. Ég býst við að það séu þær niðurstöður sem við munum horfa til,“ segir Rúna og bætir við:

„Bretar hafa bólusett 11 milljónir með bóluefni AstraZeneca og segja að það sé ekki hærri tíðni á blóðtappa en í almennu þýði. Svíar ákváðu líka að gera ekki neitt. En okkur fannst, og sóttvarnalækni fannst, það alveg tilefni til þess að staldra við og skoða málið. Við sjáum þá kannski eitthvað í næstu viku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert