Árni Gils sýknaður í Landsrétti

Landsréttur sneri við dómi héraðsdóms.
Landsréttur sneri við dómi héraðsdóms. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur sýknaði í dag Árna Gils Hjaltason af ákæru um tilraun til manndráps. Árni hafði áður verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Árna var gefið að sök að hafa stungið annan mann með hnífi við Leifasjoppu í Breiðholti í mars 2017 en maðurinn fékk þar gat í höfuðkúpuna. Árni hefur alla tíð neitað sök og haldið því fram að hann hafi verið að verjast árás mannsins.

Málið hefur velkst um í dómskerfinu síðan þá. Árni var fyrst sakfelldur í héraðsdómi fyrir árásina árið 2017, en Hæstiréttur ómerkti síðar dóminn og vísaði málinu aftur í héraðsdóm. Komst héraðsdómur þá að sömu niðurstöðu og áður, en Árni áfrýjaði til Landsréttar sem hefur nú sýknað hann.

Í dómi Landsréttar segir meðal annars að framburður brotaþola, mannsins sem var stunginn, hafi ekki fengið nægilega stoð í framburði annarra vitna eða öðrum sönnunargögnum málsins. Þannig hafi enginn þeirra séð Árna stinga brotaþola með hnífi í höfuðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert