Leikarinn Atli Rafn Sigurðarson fær að áfrýja til Hæstaréttar máli sínu gegn Leikfélagi Reykjavíkur vegna uppsagnar hans frá Borgarleikhúsinu í desember árið 2017. Hins vegar fær hann ekki að áfrýja sambærilegu máli gegn Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra. Þetta kemur fram í niðurstöðu Hæstaréttar við málskotsbeiðni Atla, en bæði leikfélagið og Kristín voru sýknuð af kröfum hans í Landsrétti.
Atli var ráðinn til Borgarleikhússins í eitt ár frá og með 18. ágúst árið 2017, en þriggja mánaða uppsagnarfrestur var í samkomulaginu. 16. desember var Atla svo sagt upp, en ekki vikið að ástæðum uppsagnarinnar í uppsagnarbréfinu. Kristín greindi Atla hins vegar frá því við það tækifæri að tilefni uppsagnarinnar væri tilkynningar sem hefðu borist frá konum um kynferðislega áreitni hans. Var Atli upplýstur um fjölda kvenna sem hefðu kvartað en ekki nánar frá atvikum.
Atli telur í málinu að ekki hafi verið fylgt reglum um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum auk þess sem uppsögnin hafi farið í bága við þau sjónarmið sem fram komi í handbók starfsfólks leikhússins.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að uppsögnin hefði verið ólögmæt og leitt til bótaskyldu leikfélagsins sem og Kristínar. Þannig hafi henni átt að vera ljóst að aðgerðir hennar myndu hafa mikil áhrif á orðspor, starfsheiður og umtal um Atla og valda honum tjóni.
Landsréttur komst hins vegar að gagnstæðri niðurstöðu. Kom þar fram að þó ekki hafi verið farið eftir fyrrnefndri reglugerð eða handbók starfsfólks leikhússins við uppsögnina, þá væri ekki ófrávíkjanlegt að fara þyrfti eftir því. Þá væri ekki skylda á vinnuveitenda að rannsaka atvik sem gæfu tilefni til uppsagnar. Taldi Landsréttur því að leikhúsinu hefði verið heimilt að segja honum upp án þess að viðhafa þá málsmeðferð sem Atli taldi að hefði átt að vera til staðar. Einn dómari Landsréttar skilaði sératkvæði og taldi að leikhúsinu bæri að greiða Atla miskabætur.
Í niðurstöðu málskotsbeiðninnar segir að dómur Hæstaréttar í málinu geti haft fordæmisgildi um réttindi og skyldur starfsmanna og vinnuveitenda á almennum vinnumarkaði þegar reyni á uppsögn starfsmanns sem borinn hafi verið sökum af þessu tagi. Því er Atla veitt heimild til að áfrýja málinu gagnvart leikfélaginu. Hins vegar er ekki talið að úrslit málsins sem varði Kristínu hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni Atla. Þá verði heldur ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til hvað Kristínu varði. Að því leyti er hafnað málskotsbeiðninni sem nær til Kristínar.