„Við erum að horfa á það að okkar tímaáætlanir gætu hliðrast aftur um fjórar vikur en AstraZeneca er stór liður í okkar bóluefnisöflun,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við mbl.is um áhrif tímabundinnar stöðvunar á bólusetningum með bóluefni frá AstraZeneca.
Bólusetningardagatal stjórnvalda hafði áður miðað við að allir sem vildu gætu verið bólusettir gegn Covid-19 fyrir lok annars ársfjórðungs; fyrir júnílok.
Katrín segir hins vegar að bóluefni belgíska lyfjafyrirtækisins Janssen, sem er í eigu Johnson & Johnson, sé ekki inni í núverandi áætlunum stjórnvalda en samið hefur verið um 235.000 skammta frá fyrirtækinu.
Bóluefni Janssen fékk markaðsleyfi á Íslandi í gær og beðið er eftir afhendingaráætlun frá fyrirtækinu. Vonir standa til að hægt verði að hefja bólusetningu með efninu í næsta mánuði en ólíkt þeim efnum sem hafa fengið markaðsleyfi hér á landi hingað til þarf einungis eina sprautu; ekki tvær.
„Auðvitað vonar maður að það geti flýtt fyrir á móti, en við viljum líka horfast í augu við það að þarna er komin töf,“ segir Katrín.
Aðspurð segist forsætisráðherra vitanlega hafa orðið fyrir vonbrigðum vegna fregna af bóluefni AstraZeneca. „Þetta er grautfúlt, en svona er þetta og svona er þessi veira.“