„Þetta er heilmikil upphefð. Bæði fyrir mig persónulega en ekki síður skattinn/tollgæsluna,“ segir Sigfríður Gunnlaugsdóttir, fagstjóri alþjóðamála hjá tollgæslunni.
Sigfríður var nýverið kjörin formaður þekkingaruppbyggingarnefndar Alþjóðatollastofnunarinnar, WCO Capacity Building Committee. Hún segir í samtali við Morgunblaðið að það sé krefjandi verkefni að takast á við formennsku í jafn mikilvægri nefnd hjá stofnuninni. Sigfríður kveðst einnig sannfærð um að formennska Íslands falli vel að áherslu íslenskra stjórnvalda á frjáls og opin alþjóðaviðskipti, lýðræði, jafnrétti og sjálfbæra þróun.
Hlutverk formanns nefndarinnar er m.a. að stýra fundum hennar og móta dagskrána fyrir hvern fund sem fulltrúar 100-120 ríkja sitja auk annarra. Formaðurinn kemur auk þess fram fyrir hönd nefndarinnar, fylgist með starfi stofnunarinnar og tekur þátt í mótun málaflokksins.
Sigfríður hefur lengi gefið sig að alþjóðastarfi á sínu sviði og hefur komið sér upp góðu tengslaneti. Áður en hún kom til starfa hjá tollinum var hún verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun í Malaví í tvö ár. Hún segir í samtali í Morgunblaðinu í dag að starf þekkingaruppbyggingarnefndar Alþjóðatollastofnunarinnar hafi strax heillað hana enda taki það til 180 landa.