Framkvæmdastjóri Arctic Hydro vonast til að fá framkvæmdaleyfi fyrir virkjun Þverár í Vopnafirði á vormánuðum þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir í sumar.
Breytingar á aðalskipulagi vegna virkjunarinnar hafa verið staðfestar og deiliskipulag er til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun.
„Við erum búnir að semja við framleiðendur véla og röra, verktaka og þjónustuaðila,“ segir Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro. Þá hefur verið gerður langtímasamningur við HS orku um kaup á allri framleiðslu virkjunarinnar, að þvíi er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.