Hollvinasamtök Húsavíkurkirkju voru formlega stofnuð að lokinni kvöldguðsþjónustu á sunnudaginn var. „Þónokkuð af nýjum hollvinum skráði sig í samtökin á fundinum,“ sagði Helga Kristinsdóttir, formaður sóknarnefndar.
Hún var áheyrnarfulltrúi á fyrsta stjórnarfundi hollvinasamtakanna. Þar skipti stjórnin með sér verkum. Sólveig Mikaelsdóttir er formaður, Heiðar Hrafn Halldórsson er ritari og Jóna Matthíasdóttir gjaldkeri. Meðstjórnendur eru Guðmundur Bjarnason og Dóra Ármannsdóttir.
„Þörfin á viðgerð Húsavíkurkirkju hefur fengið mikla umfjöllun og athygli. Fólk deildi þeirri frétt og hún fór víða. Svo á að gera heimasíðu og Facebook-síðu. Það á líka að útbúa dreifibréf því eldri kynslóðin, sem þykir ekki síst vænt um kirkjuna sína, er ekki öll á samfélagsmiðlunum. Við stofnuðum strax söfnunarreikning og það er farið að safnast inn á hann,“ segir Helga í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.