Hörður Felix kemur í stað Jóns Steinars

Hörður Felix Harðarson.
Hörður Felix Harðarson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hörður Felix Harðarson, hæstaréttarlögmaður, hefur tekið að sér að vinna að tillögum um mögulega styttingu á málsmeðferðartíma sakamála á rannsóknar- og dómstigi. Jón Steinar Gunnlaugsson, fv. hæstaréttardómari, óskaði í morgun eftir því að vera leystur frá verkefninu og hef ég fallist á þá beiðni.“

Þetta kemur fram í færslu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra á Facebook. Greint var frá skipun Jóns Steinars fyrr í vikunni og sætti valið á honum nokkurri gagnrýni. Jón Steinar sakaði gagnrýnendur um að nota nafn hans til að koma höggi á dómsmálaráðherra.

Hagur allra að málin taki ekki of langan tíma

Í færslunni áréttar Áslaug Arna að tildrögin að þessu verkefni sem Hörður Felix mun leiða hafi verið síendurteknar fréttir af löngum málsmeðferðartíma efnahagsbrota, einkum í svonefndum hrunmálum.

„Ég hef átt samtöl við fjölda lögmanna sem sinnt hafa slíkum málum og öll erum við sammála um að úrbóta í málaflokknum sé þörf. Niðurstaða þeirrar vinnu sem nú er ráðist í getur gagnast einnig í fleiri brotaflokkum. Það er hagur allra að rannsókn og meðferð mála fyrir dómstólum taki ekki of langan tíma,“ skrifar dómsmálaráðherra.

Mikilvægt að hlusta á ólík sjónarmið

Hörður Felix mun kalla sérfróða aðila að borðinu, fólk með reynslu og þekkingu sem verjendur í sakamálum til að leggja sín lóð á vogarskálarnar.

„Ég tel mikilvægt að hlusta á ólík sjónarmið í þessu efni, meðal annars frá þeim sem starfa ekki innan kerfisins. Afraksturinn verður tekinn til skoðunar og í framhaldinu kallað eftir sjónarmiðum fleiri aðila, t.d. réttarfarsnefndar,“ skrifar ráðherra einnig.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra féllst á beiðni Jóns Steinars um …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra féllst á beiðni Jóns Steinars um að fá að vera leystur frá verkefninu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert