Hvaða sóttvarnaaðgerð á landamærum er best?

Skimun í Leifsstöð.
Skimun í Leifsstöð. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Undir handleiðslu Thors Aspelund hefur hópur vísindafólks við Háskóla Íslands rannsakað áhrif mismunandi sóttvarnaaðgerða á landamærum.

Hópurinn bar saman fjórar mismunandi aðgerðir á landamærum og voru áhrif þeirra metin á fjölda smitaðra ferðamanna sem komast í gegnum eftirlit, fjölda ferðamanna í farsóttarhúsi og fjölda innanlandssmita sem berast með smituðum ferðamönnum.

Aðferðirnar fjórar sem bornar voru saman eru:

A. Tvær skimanir á landamærunum, ein í heimalandi ferðamanns og hin á Ísland, og PCR-vottorðs krafist sem staðfestingar á fyrri skimun.

B. Tvær skimanir, báðar á Íslandi og fimm daga ferðamannasmitgát milli skimana.

C. Ein skimun á landamærunum.

D. Tvær skimanir á landamærunum, báðar á Íslandi, og fimm daga sóttkví á milli skimana.

„Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að langflestir smitaðir ferðamenn kæmust í gegn miðað við aðferð C en fæstir miðað við aðferðir B og D. Aðferð A kemur hins vegar best út varðandi fjölda ferðamanna í farsóttarhúsi. Þá myndu fæst innanlandssmit koma upp vegna smitaðra ferðamanna miðað við aðgerðir D og A,“ segir í tilkynningu.

Frá og með 1. maí mun sóttvarnaaðgerð A gilda fyrir farþega sem koma til landsins frá gulum og grænum löndum. Fyrir farþega annarra landa mun hins vegar aðgerð D gilda að viðbættu PCR-prófi.

Skýrsluna í heild sinni má finna á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert