Kjör eldri borgara hafi stórbatnað

Kjör eldri borgara hafa stórbatnað samkvæmt nýrri samantekt fjármálaráðuneytis.
Kjör eldri borgara hafa stórbatnað samkvæmt nýrri samantekt fjármálaráðuneytis. mbl.is/​Hari

Hvort sem litið er til tekna, kaupmáttar eða eigna- og skuldastöðu hafa kjarabætur eldri borgara verið talsvert meiri en annarra aldurshópa. Þá hafa útgjöld ríkisins til ellilífeyrisþega aukist verulega. Þetta kemur fram í nýrri samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Heildartekjur lífeyrisþega sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) hafa hækkað um helming frá árinu 2015 og kaupmáttur þeirra aukist, en aukningin er hlutfallslega mest hjá þeim tekjulægstu.

Þá er eigna- og skuldastaða hópsins góð, langflestir búa í eigin húsnæði og hjá miklum meirihluta eldri borgara er greiðslubyrði á bilinu 0-10% af ráðstöfunartekjum að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins þar sem lesa má nánar um samantektina.

Hækkun í tíð sitjandi ríkisstjórnar

Þar segir einnig að heildartekjur ellilífeyrisþega sem fá greiðslur frá TR hafi hækkað mikið í tíð sitjandi ríkisstjórnar. Tekjulægri hópar hafi hækkað meira en þeir tekjuhærri en frá árinu 2016 hefur meðaltal heildartekna tekjulægsta hópsins hækkað um 39%.

Á sama tíma hafa heildartekjur einstaklinga sem tilheyra næstefstu tíundinni hækkað um 9%.

Færri reiða sig á greiðslur frá TR

„Þá hefur þeim fjölgað á síðustu árum sem eru svo tekjuháir að þeir fá eingöngu greiðslur frá lífeyrissjóðum en ekki frá TR. Um fimmtungur 67 ára og eldri fékk eingöngu greiðslur frá lífeyrissjóðum árið 2018 og fjölgaði um 7% frá árinu 2015 þegar horft er til hlutfalls af aldurshópnum, segir enn fremur í tilkynningunni.

Hjá aldurshópnum 65-74 ára stóð greiðslubyrði af föstum greiðslum sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hjá tæplega 70% hópsins í 0-10% af ráðstöfunartekjum árið 2018 og var hlutfallið enn hærra hjá þeim sem voru 75 ára og eldri. Til samanburðar voru tæp 55% fólks í aldurshópnum 35-55 ára með svo lága greiðslubyrði sama ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert