Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti í dag nýja klasastefnu fyrir Ísland. Eins og nafnið ber með sér lýtur hún að starfsemi klasa í víðum skilningi, þó að einkum tíðkist þessi gerð stofnunar á vettvangi nýsköpunar.
Klasi er samstarfsvettvangur, oft með þátttöku margra aðila, sem hefur það markmið að ná skýrum og tilteknum árangri. Dæmi um klasa á Íslandi eru Íslenski ferðaklasinn, Íslenski sjávarklasinn og Álklasinn. Oft og tíðum eru klasar með opna félagsaðild og byggjast á félagslegum þáttum til að örva útrás og frekari árangur í viðskiptum.
Ráðherra sagði á fundi í Grósku í dag að klasasamstarf gengi út á að skapa tengslanet og samstarf fyrirtækja í viðskiptalífinu.
„Klasar eru hreyfiafl nýsköpunar í þeim geira sem hann myndast um. Ég er sannfærð um að í framtíðinni muni hlutverk klasa í nýsköpunarvistkerfi atvinnulífsins verða enn fyrirferðarmeira og mikilvægara.
Þeir þurfa að fá það súrefni, eldmóð og kraft sem nauðsynlegur er til að knýja áfram verðmætasköpun og toga íslenskt atvinnulíf áfram upp stigann í átt að aukinni samkeppnishæfni,“ sagði Þórdís.