Hættan á fjórðu bylgju faraldurs er ekki alveg liðin hjá þó að líkurnar á henni hafi minnkað eftir að skimanir, sem framkvæmdar voru eftir að í ljós kom að smitaður starfsmaður Landspítala sótt tónleika í Hörpu í síðustu viku, reyndust neikvæðar.
Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. Á föstudag, laugardag í síðustu viku og mánudag í þessari viku greindust fjórir með breska afbrigðið svokallaða utan sóttkvíar.
Breska afbrigðið er talið meira smitandi en önnur afbrigði sem greinst hafa hér á landi og óttuðust margir að í kjölfarið myndi blossa upp fjórða bylgja faraldurs. Þannig voru tíu starfsmenn Pizzunnar, 30 starfsmenn Hagkaups og 28 iðkendur í World Class sendir í sóttkví vegna smitanna. Enginn af þeim reyndist smitaður.
Þórólfur segir að viðbrögðin eftir að smitin komu upp hafi verið góð. Hópsmitið hefði getað orðið stærra og sett okkur í verri stöðu.
„Þetta er búið að vera svona allan tímann svona rússíbanareið upp og niður. Þetta gekk bara mjög vel af því þetta leit út fyrir strax í byrjun að vera tiltölulega afmörkuð mynd – alla vega virkaði það þannig og ég vona að það endi þannig líka.“
„Það hefði verið verra ef við hefðum verið að fá dreifð smit út um allt. Þá hefðum við verið í miklu verri stöðu. Þannig að þetta leit strax [vel] út og maður vonaðist til að þetta myndi haldast þannig,“ segir Þórólfur.
Þórólfur er með nýtt minnisblað um sóttvarnaaðgerðir í vinnslu en núverandi reglugerð gildir út 17. mars. Hann getur ekki svarað hvort von sé á einhverjum breytingum á núverandi fyrirkomulagi.
„Við erum að skoða þetta enn þá og endanlega verður þetta ekki alveg klárt fyrr en maður sér fyrir endann á þessu hópsmiti sem kom upp í síðustu viku sem ræður svolítið um endanlega niðurstöðu frá mér,“ segir hann að lokum.