Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) fagnar 35 ára afmæli næstkomandi mánudag, 15 mars.
Segir þá í tilkynningu frá FEB að á tímamótum sem þessum sé gott að líta yfir farinn veg en þó skuli fyrst og fremst horfa til framtíðar.
„Á afmælisárinu eru mörg tækifæri sem við getum nýtt okkur því alþingiskosningar eru á dagskrá í haust og undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 2022 hefst á árinu.
Við munum vinna sameinuð með öðrum félögum eldri borgara á landinu í samvinnu við LEB við að vekja athygli á þörfum og kröfum eldri borgara á þeim mánuðum sem fram undan eru í kosningabaráttunni til Alþingis,“ segir í tilkynningunni.
Stofnfélagar voru upphaflega um 750 talsins en þeim hefur nú fjölgað í um 13 þúsund.
„Með bættri lýðheilsu hefur meðalaldur hækkað sem kallar á ýmsar breytingar í okkar hagsmunabaráttu sem og í okkar starfsemi. Með fjölgun félagsmanna þarf að mæta fjölbreyttari óskum um félagsstarf, félagslíf og afþreyingu.
Tækifæri fólks eru orðin meiri við að uppfylla gamla drauma eins og t.d. að setjast á skólabekk, fara í hljómsveit, kór, stunda útivist eins og fjallgöngur, golf, skíði eða hjóla svo eitthvað sé nefnt,“ segir í tilkynningunni.
Félagið rekur því í dag ferðaskrifstofu til að sinna óskum félagsmanna um skipulagðar ferðir ásamt því að bjóða upp á fjölbreytt úrval námskeiða og klúbba. Auk þess hefur félagið staðið að fjölda íbúðarbygginga fyrir félagsmenn.