Hagstofa Íslands hefur opnað nýjan vef: Velsældarvísar: Miðlun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði á Íslandi sem er ætlað að gefa heildarmynd af hagsæld og lífsgæðum landsmanna.
Á vefsíðunni má finna upplýsingar um 39 velsældarmælikvarða auk velsældarkvarða embættis landlæknis sem mælir andlega líðan fólks að því er segir í fréttatilkynningu.
Ríkisstjórnin samþykkti notkun velsældarmælikvarðanna í apríl 2020 og var Hagstofunni falið að halda utan um verkefnið. Á alþjóðavísu er víða unnið að þróun slíkra mælikvarða sem skrefi í átt að sameiginlegum skilningi á því hvaða þættir geri líf fólks betra.
Ríkisstjórnin lagði sex velsældaráherslur til grundvallar við gerð síðustu fjármálaáætlunar og fjárlaga. Saman endurspegla áherslurnar stefnu ríkisstjórnarinnar og horfa til framtíðar á mikilvægum sviðum. Velsældaráherslurnar sex sem ríkisstjórnin hefur sett í forgrunn varða andlegt heilbrigði, öryggi í húsnæðismálum, virkni í námi og starfi, kolefnishlutlausa framtíð, grósku í nýsköpun og betri samskipti við almenning samkvæmt fréttatilkynningu.